146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

framsal íslenskra fanga.

73. mál
[16:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mjög nauðsynleg. Mig langar bara að vekja athygli á því að á síðasta kjörtímabili skrifaði Ísland undir og löggilti Evróputilskipun sem lýtur að handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar. Þetta var þingmál nr. 463.

Við Píratar gagnrýndum þetta því það virðist vera sem það sé lítil meðvitund um hvað þetta þýði. Þetta þýðir að hægt er að framselja íslenska ríkisborgara til Evrópuríkja, ekki bara Norðurlandanna eins og áður hefur verið. Mig langaði að spyrja hvort ekki hefði verið þá tilefni til þess að kanna leiðir til að búa til samninga á milli landa. Því að fangelsi í Brasilíu eru ekki þau einu sem eru viðurstyggileg.