146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er ekki hægt annað en að skála fyrir Sjálfstæðisflokknum með svona lélega tillögu.

Í nýútkominni skýrslu um orkuöryggi í landinu sem unnin var af erlendum sérfræðingum fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet kemur ýmislegt áhugavert fram sem bæði lýsir núverandi ástandi í orkuöryggi og flutningskerfinu í raforku. Þarna er ýmis hugmyndafræði sem mér hugnast ekki en annað er eftirtektarvert. Það kemur fram að dreifikerfið er ekki gott. Það er vitað fyrir að mikil uppsöfnuð þörf er á endurnýjun og styrkingu á raforkuflutningskerfinu og brýnt að auka flutningsgetu þess víða. Í skýrslunni kemur fram að ráðast þyrfti í stefnumótun varðandi raforkuuppbyggingu til langs tíma hvað varðar vöxt í framleiðslu og flutningi og sölu. Með vaxandi eftirspurn þurfi að framleiða meira rafmagn. Vísað er til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Þess má geta að í dag fer vel yfir 80% af orkusölu til stóriðjunotenda með langtímasamningum. Orkuframleiðsla er mest á Suðurlandi en eingöngu um 4% hennar eru nýtt þar. Skýrsluhöfundar benda á að engin orkustefna sé í landinu og leggja til að mótuð sé opinber stefna um hvort auka eigi framleiðslu og hvernig orkuvinnsla eigi að vera í forgangi. Ég tek undir það að mikilvægt er að skýr eigendastefna ríkisins á Landsvirkjun liggi fyrir, um hvernig þeir orkukostir sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar skuli nýttir og að aðgengi almennings og lítilla og meðalstórra fyrirtækja á orku sé tryggt.

Hingað til hefur stóriðjan fengið langtímasamninga um orkukaup á lágu verði á kostnað almennings og annarra kaupenda. Skýrsluhöfundar vilja reyndar að ríkisvaldið ákveði virkjunarkost og bjóði út, líkt og er þekkt í Evrópu og Bandaríkjunum, og nýti markaðslausnir. Ég tel það mjög hættulega (Forseti hringir.) hugmyndafræði sem við eigum að leggjast alfarið gegn á Íslandi.


Efnisorð er vísa í ræðuna