146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að ræða stuttlega mikilvægt mál sem er tengt vökva, reyndar ekki áfengi sem betur fer. Þetta er stórt skref í orkumálum sem ég ætla rétt að fá að minnast á, hið íslenska djúpborunarverkefni. Þetta er önnur eða þriðja holan sem er boruð og hún hefur heppnast og er orðin nærri fimm kílómetra djúp, 4.626 metrar er sagt. Og hitastigið niðri er yfir 430 stig og þrýstingurinn yfir 200 loftþyngdir eða bör eins og við segjum. Þetta er það sem við köllum yfirkrítískt ástand. Nú taka við rannsóknir og prófanir í tvö til þrjú ár. Það er full ástæða til þess að fyllast bjartsýni yfir því að þarna séu veruleg tíðindi í orkumálum Íslendinga.

Hvað er þarna niðri? Vökvinn, eða hvað á að kalla þetta, er eins konar gas. Vatnið sem þarna er niðri á fimm kílómetra dýpi eða svo er eins konar gas og orkuinnihald þess er miklu hærra heldur en við eigum að venjast úr því sem kemur upp úr borholum. Það er því hægt að fá fimm til tíu sinnum meira afl úr hverri borholu heldur en þeim sem við höfum átt að venjast hingað til, sem þýðir að raforkuver er ekki með 30 borholur heldur fimm eða tíu. Þetta hefur líka mjög sterka alþjóðlega skírskotun vegna þess að það eru önnur svæði í heiminum, háhitasvæði, sem þetta á enn fremur við. Við erum að leggja til alþjóðlegra orkumála töluvert stórt skref og loftslagsmála sömuleiðis.

Áhrif á orkustefnuna hér innan lands geta orðið töluverð ef þetta er allt saman árangursríkt, hefur áhrif á rammaáætlun, raskar hlutfalli vatnsvirkjana og jarðvarmavirkjana og eins hefur það mjög mikil áhrif á orkunýtinguna sjálfa.

Ég ætla að hvetja þingheim til að fylgjast vel með og hyggja að þessari þróun og leyfi mér með þessum fáeinum orðum að flytja hugsanlega orkubyltingu inn á Alþingi. Þakka ykkur fyrir.


Efnisorð er vísa í ræðuna