146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í gær átti sér stað sérstök umræða sem var um margt mjög góð og hefði í rauninni átt að fá mun meiri athygli fjölmiðla vegna þess að þar var málefni undir sem skiptir alla verulegu máli, þ.e. fjármál ríkisins og hvernig þeim er dreift. Þegar ég hlustaði á umræðuna og velti fyrir mér hvernig ætti að bregðast við í gær þá hefðu fjölmiðlar, þó ekki hefði verið nema fyrir þær sakir hvað sagt var af hálfu ráðherrans, átt að taka eftir.

Ég ætla að fá að vitna, með leyfi forseta, í orð hæstv. ráðherra sem var að loka umræðunni, en þau voru svona:

„Mér finnst áhugavert hverjir það eru sem sýna mestan áhuga á þessum umræðum, það erum við hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson og hinar hagsýnu húsmæður sem eru í stórum hópum hér inni.“

Ég velti fyrir mér hvort þetta er í nafni og anda ríkisstjórnar sem kennir sig við jafnrétti og meira að segja hefur á að skipa jafnréttisráðherra, sem tók sér sérstaklega þann titil af því það átti að skipa svo stóran sess.

Mér finnst óeðlilegt að ríkisstjórnin umberi slíka orðanotkun og tali til hóps þingkvenna með þessum hætti. Ég spyr ykkur, kæru þingkonur meiri hlutans: Finnst ykkur þetta í lagi? Ég vænti þess auðvitað að þið ræðið þetta í ykkar hópi eða veltið því fyrir ykkur: Haldið þið að þessi umræða hefði átt sér stað og þessi orð eða sambærileg fallið ef karlar hefðu verið hér í meiri hluta að taka þátt í umræðunum eða hlusta? Haldið þið það? Ekki ég. Ég held ekki.

Orðanotkun skiptir máli. Samhengi og vettvangur skiptir líka máli. Það getur ekki verið í lagi, og mér finnst þetta ekki viðeigandi, að ráðherra í ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti tali svona til kvenna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna