146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þessa sérstöku umræðu um hinn mikilvæga málaflokk, heilsugæsluna. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að biðja um umræðuna og fyrir góða ræðu.

Heilsugæslan hér á landi er fyrsti viðkomustaðurinn þegar einstaklingar leita til heilbrigðisþjónustunnar. Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er lögð sérstök áhersla á að styrkja það hlutverk. Sú áhersla er liður í því að tryggja aðgengi að öruggri og góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, búsetu og þjóðfélagsstöðu. Góð heilsugæsluþjónusta felst ekki síst í því að þar sé aðgengi að þjónustu ýmissa heilbrigðisstarfsmanna. Fyrir utan þjónustu lækna og hjúkrunarfræðinga má nefna sálfræðinga, sjúkraþjálfara, næringarfræðinga og lyfjafræðinga. Með því að auka þverfaglega nálgun í heilsugæslunni má bæði bæta þjónustuna og gera hana skilvirkari. Ánægjulegt er að sjá heilsugæslustöðvar leggja í ríkari mæli áherslu á teymisvinnu, eins og hv. þingmaður minntist á, t.d. hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Það er til samræmis við þróun heilbrigðisþjónustu annarra landa sem við kjósum að bera okkur saman við. Ávinningurinn af heildrænni og þverfaglegri nálgun felst m.a. í því að meiri áhersla verður á forvarnir og fyrirbyggjandi meðferð sem eykur lífsgæði einstaklingsins og er um leið hagkvæmara fyrir heilbrigðiskerfið. Það á t.d. við um stoðkerfisvanda og geðheilbrigðisþjónustu.

Unnið er að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni.

Nú er í gangi sérstakt átak til að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslu og er það í takt við áherslu ríkisstjórnarinnar þar sem einnig er litið sérstaklega til aukins stuðnings við börn foreldra með geðrænan vanda. Í því samhengi er líka ánægjulegt að sjá möguleika fjarheilbrigðisþjónustu á ýmsum sviðum, eins og í dreifbýlinu, en þessi þróun hefur einnig orðið á heilsugæslu í þéttbýli eins og dæmi eru um í öðrum löndum.

Staða heilsugæslunnar hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarin ár og hefur verið þverpólitísk sátt um að hana þurfi að styrkja. Reynslan af fjármögnunarkerfi Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu gefur vísbendingar um að þjónustan sé að batna og fleiri njóti þjónustu stöðvanna á dagtíma. Hér hefur verið rætt um þróun heilsugæslunnar við einstaklingana og samfélagið.

Í ræðu sinni velti hv. þingmaður aðeins fyrir sér rekstrarfyrirkomulagi heilsugæslustöðva. Varðandi heilsugæsluna er um að ræða tvær megináskoranir. Í fyrsta lagi er það eðli þjónustunnar og hvernig hún þróast, t.d. með teymisvinnunni. Í annan stað er um að ræða breytingar á skipulagi og fjármögnun, þ.e. hvernig við stýrum aðgengi að þjónustunni í gegnum dreifingu fjármagns og skipulagi þjónustunnar. Gerðar hafa verið breytingar á fjármögnunarlíkani Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn þannig að það fer að styttast í mánaðarlanga reynslu af því verkefni. Einnig hefur skipulag þjónustunnar breyst í dreifbýlinu með tilkomu heilbrigðisstofnana um landið. Þar held ég að séu miklir möguleikar í að styrkja möguleika heilsugæsluhluta þeirrar vinnu.

Breytingarnar á höfuðborgarsvæðinu snúast um breytingar á fjármögnunarfyrirkomulagi þar sem greiðslur til viðkomandi stöðva miðast við fjölda og samsetningu sjúklinga. Tilgangur þessara breytinga er að auka gæði og skilvirkni í þjónustu heilsugæslustöðva höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að grunnheilbrigðisþjónusta sé í meira mæli veitt á heilsugæslustöðvum. Hið nýja líkan og kröfulýsingin sem líkaninu fylgir nær til allra heilsugæslustöðva á svæðinu. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sjúkratryggingar Íslands og embætti landlæknis. Ítarlegir kynningarfundir hafa verið haldnir fyrir forsvarsmenn einstaka heilsugæslustöðva.

Undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins heyra 15 stöðvar. Auk þeirra munu einkareknar stöðvar í Lágmúla og Salahverfi tilheyra hinu nýja fjármögnunarkerfi og við þær bætast síðan tvær nýjar einkareknar stöðvar í byrjun apríl, önnur á Bíldshöfða og hin í Urðarhvarfi.

Það eru mjög sterkar vísbendingar um að heilsugæslustöðvarnar hafi á undanförnum mánuðum verið að aðlaga sig breyttum fjármögnunarforsendum. Skráningar hafa aukist og fjöldi koma á stöðvar sömuleiðis, svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa gagnaupplýsingar um allt sem viðkemur daglegum rekstri heilsugæslustöðva aukist til muna, sem er mjög mikilvægt til þess að sé hægt að auka gæði og skilvirkni í þjónustu enn frekar þegar horft er til lengri tíma. Aðgengi er aukið og sjúklingur velur hvar hann skráir sig á heilsugæslustöð. Með nýju kerfi er haldið betur utan um mikilvægar upplýsingar um þjónustuna og í kerfinu er innbyggður hvati til að veita góða og alhliða þjónustu.

Ekki eru áform uppi um samninga við fleiri heilsugæslustöðvar að svo stöddu. En þegar til langs tíma er litið er ætlunin að nýta nýja fjármögnunarkerfið fyrir heilsugæslustöðvar jafnvel um landið þar sem miðað verði við forsendur á hverjum stað. Allt snýst það um að bæta aðgengi að öruggri heilsugæslu, því að eins og flestir vita er það óásættanlega stór hluti íbúanna sem hefur ekki haft nógu gott aðgengi að þjónustu heilsugæslu. Mikilvægt er að efla heilbrigði einstaklinga og samfélagi um leið og brugðist er við brýnum viðfangsefnum sem snúa að sjúkdómum. Aðalatriðið er að tryggja gæði (Forseti hringir.) þjónustunnar, jafnt aðgengi og jafnræði varðandi kostnað.