146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Efling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu er tvímælalaust mikilvægasta verkefni sem að henni snýr. Í orði kveðnu er samstaða um þetta grundvallarfyrirkomulag en við getum velt því fyrir okkur hversu vel þess sér stað á borði. Er það svo og hefur það verið svo að menn hafi í reynd gert það sem til þarf til að gera heilsugæslunni kleift að vera þessi fyrsti viðkomustaður? Það snýst um fjármuni. Það snýst um mönnun. Það snýst um heilsugæslu, heimilislækna, hjúkrunarfræðinga o.s.frv. Það snýst um að sálfræðiþjónusta sé í alvöru í boði á heilsugæslustöðvum. Það snýst um að heilsugæslustöðvar séu sá breiði samþætti vettvangur fyrir alhliðaþjónustu sem þær eiga að vera. Þar þarf allt að vera til staðar; sálfræðiþjónustan, ungbarna- og mæðraeftirlitið, fræðsla, forvarnir.

Samþætting heilsugæslunnar við félagsþjónustu á vegum sveitarfélaganna hefur augljósa kosti. Reynslan hefur sýnt að þar sem það módel hefur verið keyrt, eins og t.d. á Akureyri þar sem sveitarfélagið annaðist um rekstur heilsugæslustöðvarinnar á grundvelli samnings og sem tilraunaverkefni, hefur það gefið gríðarlega góða raun. Það er augljóst að þá er best að hinir opinberu aðilar, ríki og sveitarfélög, vinni þar saman að verkefnunum.

Það er óendanlega dapurlegt og vitlaust ef umræða um heilsugæslustigið fer öll að snúast um tilburði til einkavæðingar eða útvistunar því að það er ekki lausnin heldur hin, að efla heilsugæsluna sem slíka og að ná fram því hagræði, þeirri bættu þjónustu og þeirri skilvirku vinnslu vandamála í heilbrigðiskerfinu sem í gegnum það er hægt að ná. Því miður eru slíkir útvistunar- og einkavæðingartilburðir enn á ferðinni og hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra hefur vissa arfleifð í þeim efnum, þó að hann gerði vissulega margt vel og undanskildi (Forseti hringir.) arðgreiðslur í þeim efnum.

Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að fara að heilbrigðislögum og gera allt sem í hans valdi stendur til að gera heilsugæsluna að því sem hún á að vera samkvæmt lögum: (Forseti hringir.) Öflugur fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu.