146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir mikilvæga umræðu um þetta mikilvæga málefni og hv. þingmanni fyrir að hefja hana. Það er rétt sem hefur komið fram að heilsugæslan er einn mikilvægasti hlekkurinn í keðjunni þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Því öflugri sem heilsugæslan er, þeim mun betur er heilbrigðiskerfið í stakk búið í heild sinni til að takast á við hlutverk sitt, auk þess sem það er hagkvæmara, það hefur sýnt sig. Þess vegna er mjög mikilvægt að við eigum hér málefnalega umræðu um hvað skiptir mestu máli í því. Það hlýtur að vera réttur sjúklinganna eða þeirra sjúkratryggðu og þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda og hvernig þeir upplifi það, að þeir fái greitt aðgengi að þjónustunni á sem bestan og hagkvæmastan hátt fyrir þá sjálfa sem og fyrir ríkissjóð. Það á að vera grunnurinn, ekki einhverjar pólitískar forsendur.

Við sjáum að þær miklu breytingar sem hafa verið gerðar undanfarið til að styrkja heilsugæsluna eru strax farnar að virka. Þar sýnir sig að það er ekki bara fjármagnið sem skiptir máli. Þetta snýst ekki aðeins um hversu mikið fjármagn er sett í þetta, sem er þó vissulega stór þáttur, heldur eru það stundum kerfisbreytingarnar sem skipta máli.

Þær kerfisbreytingar sem hafa verið í gangi að undanförnu hafa strax orðið til þess að heilbrigðisstarfsfólk er farið að koma heim og þeim er farið að fjölga sem vilja vinna í þessu, sem er jákvætt. Það er eitt af því sem þarf að gera. Skráningum hefur fjölgað og biðin eftir heilsugæslunni minnkað.

Ég held að við eigum að taka þessu með opnum huga, reyna að drífa það af sem fyrst að koma því út um landið. Ég kalla eftir því t.d. á Suðurnesjum þar sem hefur lengi verið mannekla og löng bið eftir heilsugæslu. Ég held að við ættum að taka þetta nýja módel upp þar sem allra fyrst til þess að fara að færa okkur út á landsbyggðina, til að styrkja heilsugæsluna þar sem er ekki síður mikilvægt þegar önnur sjúkrahúsþjónusta hefur dregist saman þar.