146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er líka þannig á höfuðborgarsvæðinu að mjög margir hafa ekki sinn heimilislækni. Mér finnst mjög mikilvægt að allir sem hér búa hafi aðgengi að sínum heimilislækni, sér í lagi fjölskyldur með börn og sér í lagi eldri borgarar. Sjúkdómasaga í fjölskyldum og það að hafa alltaf sama aðilann skiptir mjög miklu máli upp á að fá rétta greiningu sem fyrst. Það hlýtur að vera sparnaður á stóra excel-skjalinu.

Á dreifbýlisstöðunum þar sem fáir búa skilst mér að ekki sé nægilegt öryggi fyrir alla til að fá rétta þjónustu strax. Það eru meira að segja brotalamir í sjúkraflutningum. Ég heyrði ekki á orðum hæstv. heilbrigðisráðherra neina áætlun sem er hægt að rekja eða fylgjast með og því óska ég eftir skýrari aðgerðaáætlun frá hæstv. ráðherra þegar hann kemur hér undir lok umræðunnar með svör sín.

Mig langaði af því að ég var að lesa heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar að skora á hæstv. ráðherra að framfylgja stefnu eigin flokks um að tryggja að allir landsmenn hafi aðgang að upplýsingum um þjónustu sem er í boði, bæði á vettvangi heilsugæslu og sjúkrahúsa sem og á vegum annarra fagaðila. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða þar að lútandi.

Síðan langaði mig að spyrja hvort og hvernig áætlun gengur varðandi fjarheilbrigði, hvort það sé einhver áætlun um að auka það, og hvernig gangi að hlífa ættingjum við að verða burðarás í velferðarþjónustunni. Einnig vil ég spyrja hvernig á að efla sjálfstæði einstaklinganna, því að við höfum heyrt allt of mikið af sögum um fólk sem hefur lent í mjög erfiðum aðstæður vegna þess að það eru engin úrræði í boði.