146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:23]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að fara fram á þessa umræðu um stöðu heilsugæslunnar í landinu. Það er augljóst að það þarf að styrkja heilsugæsluna en hér langar mig sérstaklega að beina sjónum okkar að stöðu heilsugæslunnar á landsbyggðinni og þá einkum í Suðurkjördæmi.

Staðan er sú að það er bæði uppsöfnuð þörf á aukinni þjónustu við þá sem eru búsettir í hinum dreifðari byggðum en auk þess hefur álag aukist gríðarlega vegna aukins fjölda ferðamanna sem leggur leið sína um sveitir kjördæmisins. Í því samhengi má benda á að í heimasveit minni, austur í Mýrdal, sóttu jafn margir ferðamenn okkur heim í janúar 2017 og sóttu okkur heim í júní 2012. Dimmasti vetrarmánuður ársins er orðinn sambærilegur hásumarmánuðum fyrir aðeins örfáum árum síðan og þá þótti okkur nóg að gera.

Þingmenn geta síðan reynt að gera sér í hugarlund hvernig þetta er á sumrin. Þetta er gerbreytt staða frá því sem áður var. Við sem sitjum við stjórnvölinn þurfum að taka mið af því í áherslum okkar og störfum. Álag á heilbrigðisstarfsfólk á heilbrigðisstofnunum á Suðurlandi er gríðarlegt og stóraukið frá því sem áður var. Það heilbrigðisstarfsfólk sem er fyrir er ekki einungis að þjónusta heimamennina heldur þjónustar það líka ferðamennina. Þetta fólk vinnur þrekvirki. En stjórnvöld þurfa að bæta í og við þurfum að létta undir með heilbrigðisstarfsfólkinu okkar. Þetta er í forgangi hjá stjórnvöldum og því ber að fagna. Ég mun fyrir mitt leyti fylgja því fast eftir.