146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:25]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég vil einnig vekja athygli á forgangsmáli okkar Framsóknarmanna en það er heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Markmið þeirrar tillögu er að Alþingi álykti að fela hæstv. heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlunin verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Við gerð heilbrigðisáætlunar verður m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta og samgangna, fjarlægða á milli byggðarlaga, til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo við nefnum dæmi. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri sé í því að efla heilbrigðisstofnanir víða um landið.

Virðulegur forseti. Hér liggur allt heilbrigðiskerfið undir. Við Framsóknarmenn viljum sjá áætlun um hvernig eigi að efla heilsugæsluna á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu, hvernig við ætlum að nýta auð hjúkrunarrými á landsbyggðinni, hvernig við ætlum að blása til sóknar og ákveða í hvaða átt við ætlum að stefna.

Að auki ætla ég að ræða tilvísunarkerfið sem við erum við það að koma á fót. Ég verð að segja, hæstv. heilbrigðisráðherra, að ég hef talsverðar áhyggjur af stöðu mála. Í þeirri umræðu er eiginlega alltaf eingöngu talað um að efla heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, hvort heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sé tilbúin eða ekki. Í umræðunni finnst mér of lítið fara fyrir heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni og spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann hafi kannað stöðuna á heilsugæslustöðum þar, hvort eigi að efla þær og hvernig, og hvernig eigi að láta þær standa til samræmis við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mikilvægt er að svara þessum spurningum sem fyrst og upplýsa um hvaða leið, m.a. fjármögnunarleið, eigi að fara því að staðan er víða alvarleg. Við erum að keyra áfram á verktöku sem kemur misjafnlega vel við fólk. Við Framsóknarmenn (Forseti hringir.) leggjum aðaláherslu á heilbrigðismálin og höfum lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis. Við viljum jafnframt skoða ívilnandi byggðaáætlun til að tryggja betur mönnun í kerfinu. Ég spyr að lokum hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann hyggist skoða það í samráði við hæstv. byggðamálaráðherra hvort við getum nýtt ívilnandi byggðaaðgerðir (Forseti hringir.) til þess að vinna að mönnun í heilbrigðiskerfinu.