146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að nota tækifærið og ræða aðeins þetta nýja fjármögnunarkerfi sem tekið hefur verið í gagnið á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í mínum huga er það mjög jákvætt. Eitt af því sem ég tel vera lykilatriði er að þetta kerfi nær yfir allar stöðvar innan svæðisins óháð rekstrarformi, sem er töluverð jákvæð breyting frá því sem áður var. Það einfaldar allan samanburð. Þetta einfaldar gæðaeftirlit, einfaldar kostnaðareftirlit og er einfaldlega réttlætismál.

Til viðbótar í þessum breytingum er gert ráð fyrir að það sé sérstaklega greitt fyrir þjónustu á borð við skólahjúkrun, túlkaþjónustu, sem alla jafna hefur verið á hendi opinberu stöðvanna hver sem breytingin verður, og síðan er stefnt að því að greiða enn frekar fyrir sálfræðiþjónustuna en kynnt hefur verið. Er það í samræmi við stjórnarsáttmála.

Fjármögnunarlíkanið byggir annars vegar á kostnaðarvísitölu sem ræðst af fjölda einstaklinga sem eru skráðir á stöðina, kyni og aldri. Stöðvar með hlutfallslega fleiri einstaklinga yfir 65 ára aldri og hlutfallslega fleiri ungabörn fá einfaldlega meira greitt en þær stöðvar sem eru með hlutfallslega léttari sjúklinga sem er fólk á miðjum aldri. Svo er það þarfavísitalan sem endurspeglar líka áætlað umfang þjónustunnar með tilliti til sjúkdómabyrði ákveðinna skráðra einstaklinga. Þar er líka horft til félagslegra aðstæðna, en vitað er og rannsóknir sýna að tengsl eru þar á milli, þ.e. tíðni heimsókna á stöðvar og félagslegra aðstæðna.

Síðan hefur þessi breyting, þær jákvæðu breytingar á fjármögnunarkerfinu í för með sér að fólk getur einfaldlega valið hvar það skráir sig. Í kerfinu er innbyggður hvati til þess að veita góða þjónustu og hafa hana alhliða.

Spurning mín til hæstv. heilbrigðisráðherra er: Hefur það verið skoðað eða er ætlunin að skoða hvort hægt er að útvíkka þetta kerfi yfir á heilsugæslustöðvar, heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, og taka þá inn í kerfið fleiri þætti sem eru þá sérhannaðir (Forseti hringir.) eða lúta sérstaklega að aðstæðum á landsbyggðinni? Þá meina ég t.d. fjarlægð frá heilsugæslustöðvunum og annað slíkt. Slíkur hvati gæti að mínu mati (Forseti hringir.) verið ein leiðin til þess að laða að starfsfólk, lækna, á þessa staði, en eins og við vitum er mönnunarvandinn verulegur víða.