146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:42]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að hefja máls á þessari umræðu. Hún er þörf og ég heyri að við erum mörg hver mjög sammála, og flestöll heyrist mér, sem gefur manni góðar vonir um að eitthvað gott leiði af þessari annars ágætu umræðu. Ég er viss um að hæstv. ráðherra tekur hana til sín og fær smá nesti í starfi sínu.

Þegar maður er búinn að hlusta á svona marga og er síðastur á lista er svo margt sem maður vill segja en tíminn stuttur. Mig langar aðeins að koma aftur að fjármögnunarkerfinu og því verkefni sem fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra setti af stað varðandi uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna því að sjálfsögðu en hef eins og fleiri áhyggjur af landsbyggðinni. Ég heyrði að hæstv. ráðherra nefndi áðan að hann hefði í hyggju að taka jafnvel upp svipað kerfi víðar á landinu. Ég spyr þá hæstv. ráðherra: Hvenær gæti það orðið? Hvaða tímaramma erum við að tala um? Mér finnst fólk á landsbyggðinni ekki geta beðið í fimm, tíu eða fimmtán ár eftir umbótum á heilsugæslunni á sínu svæði. Mig langar eins og fleiri, hv. þm. Jóna Sólveig Elínardóttir og Elsa Lára Arnardóttir nefndu það, að koma að því hve aðstæður eru ólíkar milli landsvæða. Þá má t.d. nefna mikinn ferðamannastraum á Suðurlandinu sem eykur álagið verulega á heilsugæslunni. Heilbrigðisáætlun okkar Framsóknarmanna fjallar m.a. um þetta, að tekið sé tillit til ólíkra þátta á landinu. Mig langar að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um þetta að segja. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á mjög mikilvægan punkt, að þegar er verið að spara á einum stað er mögulega verið að færa kostnað (Forseti hringir.) yfir á aðra staði. Ég hef ekki meiri tíma. Það er af mörgu að taka og ég hlakka til að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur að segja um þetta.