146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:44]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég þakka ráðherra fyrir þátttöku í þessari umræðu og öðrum hv. þingmönnum fyrir þeirra hlut. Það þarf ekkert að árétta það hversu nálæg og hjartfólgin þessi umræða er öllum landsmönnum, heilbrigðismálin. Það er mikilvægt að þessi samfélagsþjónusta standi traustum fótum og að við leyfum okkur ekki lausung í uppbyggingu og skipulagi. En nú er í gangi tilraunastofa um einkavæðingu. Fjórar heilsugæslustöðvar hafa fengið ákjósanlegan samning og ég skildi hæstv. heilbrigðisráðherra þannig að það lægi ekkert á að halda áfram að koma opinberum heilbrigðisstofnunum inn í þetta sama greiðslukerfi. Misskildi ég eitthvað?

Heilsugæslan er ein grunnstoðin í siðmenntuðu samfélagi og heilsuvernd er stórt og mikið hugtak eins og við þekkjum. Við erum auðvitað æ meira að hverfa frá því að aðgreina félagslega og heilsufarslega þjónustu því að svo mjög eru þessir þættir samanfléttaðir. Nær er að tala um velferðarþjónustu þar sem við höfum markmið um heilsueflingu og lýðheilsu sem rauðan þráð, þau atriði sem við getum haft svo mikil áhrif á sjálf með eigin háttum í daglegu lífi.

Aðstæður eru misjafnar í landinu. Það er hvort sem við erum að fjalla um stærstu þéttbýlisstaðina eða dreifbýli. Ef hugur fylgir máli, að við viljum leita eftir jafnrétti þegnanna óháð búsetu, þá þurfum við að leggja talsvert í sölurnar, líka hvað þennan þátt snertir. Og fyrr en varir erum við farin að tala um byggðamál og byggðastefnu. Það er auðvitað einn angi málsins. Mig langar til þess að biðja hæstv. ráðherra að skýra örlítið betur mál sitt, tala skýrar til landsbyggðarinnar. Hvernig hyggst hann byggja upp, reisa við að nýju, brotna heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni? Íbúar og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu bíða eftirvæntingarfullir (Forseti hringir.) eftir úrbótum, ekki síst eftir að hafa lesið stefnuyfirlýsingu ráðherra og stefnuræðu forsætisráðherra.