146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka aftur kærlega fyrir þessa umræðu og fyrir góðar ræður hv. þingmanna. Mig langar að koma inn á örfáa punkta í lokin, eins og ég get á tveimur mínútum. Mörgum hefur orðið tíðrætt um nýtt greiðslufyrirkomulag sem er verið að taka í gagnið á höfuðborgarsvæðinu. Það greiðslufyrirkomulag gengur jafnt fyrir opinberar stöðvar heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þær stöðvar sem eru einkareknar, en ég vil minna á að þær stöðvar eru reknar af heilbrigðisstarfsmönnunum sem þar starfa sjálfir.

Það er spurt hvenær eigi og hvort eigi að yfirfæra þetta greiðslufyrirkomulag yfir á heilsugæsluna á landsbyggðinni. Ég held að það sé kannski fullsnemmt að fullyrða um nákvæmlega klukkan hvað eða hvenær það eigi að gerast. Við erum enn þá að upplifa og skoða árangurinn af þessari breytingu, en reyndar virðast fyrstu merki vera mjög jákvæð. Það er mikilvægt að viðurkenna líka að raunveruleikinn á landsbyggðinni er víða talsvert annar en á höfuðborgarsvæðinu, vegna fjarlægða, vegna mannfæðar eru aðrar áskoranir. Það er ekki víst að sömu svör gildi þar og á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna vil ég sérstaklega benda á þróun í fjarheilbrigðisþjónustu sem er svo sannarlega í gangi og ég tel að eigi eftir að breyta að einhverju leyti eðli þjónustunnar. Það þýðir þá líka að með sterkari heilbrigðisstofnunum, sem eru nú teknar til starfa í öllum landsfjórðungum, er meiri möguleiki á að veita meiri þjónustu, deila mannskap o.s.frv.

Ég sé að tími minn er búinn. Í lokin vil ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Það er augljóst að ég og a.m.k. drjúgur hópur þingmanna hérna eigum margt eftir órætt (Forseti hringir.) í sambandi við heilsugæsluna.