146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

um fundarstjórn.

[14:54]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Það er alveg óhætt að taka undir það að það er svolítið sérkennilegt að koma inn á þennan stað, sem ég vil nú ekki kannski kalla vinnustað, en engu að síður erum við að starfa hérna saman. Maður áttar sig á því að eðli þingstarfa er dálítið annað en að starfa í fyrirtæki þar sem stjórn fer með stjórn fyrirtækisins og menn vita nokkurn veginn hvað þeir eiga að gera. En ég vil taka undir það að það væri voða gott ef hægt væri að straumlínulaga þetta örlítið. En ég hef verið utan þings lengi og kannast einhvern veginn við umræðuna. Hún virðist vera alveg nákvæmlega sú sama á hverju einasta þingi, sama hverjir eru á þingi og sama hverjir stjórna þinginu, þannig að kannski er þetta bara ekki hægt. En eigum við samt ekki að reyna einu sinni enn? [Hlátur í þingsal].