146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

111. mál
[15:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsögu hans í þessu máli. Eins og kom fram í máli hans er um að ræða frumvarp þar sem er verið að, getum við sagt, betrumbæta regluverk sem þegar hefur verið innleitt, m.a. í gegnum reglur Fjármálaeftirlitsins. Efnislega eru þannig ekki miklar breytingar á ferð. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um þá stóru mynd sem þetta er hluti af, þ.e. þá miklu innleiðingu á ýmsum reglugerðum sem tengjast eftirliti með fjármálamarkaðnum. Hæstv. ráðherra kom á fund efnahagsnefndar í gær og fór þar yfir þingmálalistann. Þar kom fram að verulegur hluti þingmálalista hæstv. ráðherra er einmitt innleiðingar á slíkum reglugerðum og lúta að töluvert aukinni áherslu innan Evrópusambandsins á eftirlit með þessum geira.

Tekist var á um það í þinginu á síðasta þingi að of langt væri gengið í framsali valdheimilda til alþjóðlegra eftirlitsstofnana þegar samþykkt var þingsályktun sem miðaði að því að framselja valdheimildir inn í svokallaða tveggja stoða lausn þar sem sambærilegt fjármálaeftirlitskerfi verður byggt upp EFTA-megin og ákveðið hefur verið að byggja upp Evrópusambandsmegin. Um þetta voru ekki allir á eitt sáttir. Því langar mig að nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra, sem einnig er leiðtogi eins af stjórnarflokkunum, leiðtogi nýs flokks á Alþingi, hver afstaða hans sé til þessa máls í stjórnarskrá Íslands. Telur hann í ljósi þessa mikla samstarfs sem hann er nú að kynnast í embætti sínu sem fjármála- og efnahagsráðherra að þörf sé á slíku ákvæði um framsal valdheimilda inni í stjórnarskrá eða telur hann stjórnarskrárákvæði gildandi stjórnarskrár fullnægt með því fyrirkomulagi sem er í dag?