146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

111. mál
[15:18]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að ræða varðandi þetta frumvarp. Eins og ég sagði áðan þykir mér alltaf ágætt að auka eftirlit með fjármálastarfsemi enda getur farið mjög illa ef slíku eftirliti er ábótavant.

En mig langar fyrst og fremst að spyrja að tvennu og velta tvennu fyrir mér. Annars vegar er það að í frumvarpinu er viðauki sem kemur á milli lagaákvæðanna sem verða að skyldu, og greinargerðarinnar. Ég hef aldrei séð það fyrirkomulag áður í frumvarpi og er forvitinn að vita hvaða gildi það hefur, hvort það teljist sem hluti laganna eða hvort það teljist sem einhvers konar reglugerð í einhverjum óvenjulegum búningi. Er þetta hluti greinargerðar og því eingöngu lögskýringargagn, eða er þetta eitthvað allt annað? Ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir því. Það kann svo sem að vera að þetta hafi verið til staðar áður í öðrum frumvörpum og jafnvel lögum, en ég hef aldrei séð þetta.

En hitt, sem skiptir kannski meira máli, er að undantekningarnar í frumvarpinu eru alveg ótalmargar, sérstaklega í 6. og 20. gr. Þær leyfa meðal annars Fjármálaeftirlitinu að undanþiggja samsteypur þessu viðbótareftirliti ef þær eru með meginstarfsemi sína í ríki sem er utan aðildarríkis, þá utan Evrópusambandsins eða Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem ætla má að löggjöf hindri aðgang að nauðsynlegum upplýsingum. Mér finnst það ganga gegn því sem hæstv. ráðherra fullyrti áðan um að það gildi óháð því hvar samsteypan er með starfsemi. Það þýðir beinlínis að ef ég myndi stofna samsteypu af þessu tagi, sem ætti alla jafnan að falla undir þessi lög þar sem hún væri með þess háttar starfsemi, í landi á borð við Vanúatú, Bresku Jómfrúreyjarnar, Belís eða eitthvað svoleiðis, og setti svo í kjölfarið upp einhverja starfsstöð á Íslandi, þá væri ég í raun með því einu búinn að sniðganga þær kröfur sem gerðar eru í frumvarpinu, hreinlega með því að vera með starfsemi í landi þar sem er ekki hægt að nálgast upplýsingar um fyrirtækið og gæti því ógnað efnahagsstöðugleika landsins án þess að þetta viðbótareftirlit kæmi nokkurn tíma til sögunnar. Mér finnst það svolítið sérstök leið til að semja lög.

Það er ekki eins og fólk hafi aldrei stofnað fyrirtæki á aflandssvæðum til að komast hjá regluverki. Það hafa meira að segja nokkrir hv. þingmenn gert, og svei þeim fyrir það. Hvernig væri að í stað þess að búa til undantekningar sem auðvelt er að sveigja hjá, og vera alltaf með einhverja undanþáguleiki fyrir einhver sértilfelli sem ekki ættu að vera til og þurfa ekki að vera til, að hreinlega leyfa ekki starfsemi sem fellur af einhverjum ástæðum ekki undir það eftirlit, hvort sem við köllum það eftirlit eða viðbótareftirlit, sem við gerum kröfu um að íslensk fyrirtæki falli undir? Mér finnst það rosalega skrýtið að svo sé ekki.

Það segir líka í greinargerð með frumvarpinu að ákvæði um upplýsingaskyldu auki gagnsæi. En ég sé ekkert í frumvarpinu sem bendir sérstaklega til þess að það auki gagnsæi með einhverjum sérstökum hætti. Alla vega ekki gagnvart almenningi. Það væri einmitt gott að draga lærdóm af hruninu og bæta verklagið með því að hafa töluvert meira gagnsæi fyrir almenning innbyggt í fjármálakerfið, en slíkt gagnsæi hefur náttúrlega líka í för með sér að fjölmiðlar og akademían hafa greiðari aðgang að upplýsingum og þar með getu til þess að kanna hvort allt sé með felldu. Við vitum alveg að það sem verið er að gera með þessu frumvarpi er af hinu góða. En það er einhvern veginn ekki alveg ljóst að frumvarpið nái markmiðum sínum ef gagnsæisviðbótin er engin. Og að auki er í raun afskaplega auðvelt að sneiða hjá öllu regluverkinu sem frumvarpið felur í sér, bara með því einu að búa til fyrirtækjasamstæðu og einhvers konar keðju í gegnum akkúrat þau aflandssvæði sem eru aftur og aftur til umræðu hér á þingi.

Ég legg því til að ef frumvarpið á að ná fram að ganga að það geri það með töluverðum breytingum, þá sérstaklega með því að taka á gagnsæisleysinu sem felst í aðallega 20. gr. en einnig 6. gr. og raunar nokkrum öðrum greinum í frumvarpinu. Í 29. gr. frumvarpsins segir:

„Fjármálaeftirlitið getur í sérstökum tilvikum ákveðið að sannprófa upplýsingar um aðila sem er hluti af fjármálasamsteypu og staðsettur í öðru aðildarríki …,“ og svo framvegis.

Mér finnst þetta orðasamband, „í sérstökum tilvikum“, til þess fallið að búa til rosalega mikið túlkunarsvigrúm sem kannski er ekki þörf á. Það væri alveg hægt að sleppa þessum tveimur orðum og segja að Fjármálaeftirlitið geti „ef ástæða þykir til“ sannprófað upplýsingar. Yfirleitt þarf maður ekki að sannprófa upplýsingar nema einhver grunur leiki á því að einhver sé að svindla, segja ósatt, plata. Það getur verið annaðhvort með ráðum gert eða ekki, en þetta orðasamband, í sérstökum tilvikum, gæti verið notað til að segja að ekki sé næg ástæða til að sannreyna upplýsingar.

Í rauninni eru nokkrir vankantar á frumvarpinu sem er samt gert af góðum ásetningi og hefur auðvitað verið útfært í ýmsum Evrópusambands- og EES-löndum. En mér þykir bráðnauðsynlegt að laga þá fjölmörgu ágalla sem á því eru.