146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á ákvæðum til bráðabirgða í nýjum lögum um dómstóla. Um er að ræða þrenns konar breytingar sem varða umboð nefndar um hæfni dómara, tilfærslu á dagsetningum vegna vinnu nefndarinnar sem og um aðsetur Landsréttar.

Eins og kunnugt er samþykkti Alþingi á síðasta ári tvö lagafrumvörp sem leggja grunninn að nýrri dómstólaskipan á Íslandi. Annars vegar er um að ræða ný heildarlög um dómstóla og hins vegar lög um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Þá samþykkti Alþingi í haust lög um breytingar á ýmsum lögum sem nauðsynlegar voru til að aðlaga löggjöf að nýju dómskerfi. Á grundvelli þessara laga er nú unnið að innleiðingu á nýrri dómstólaskipan á Íslandi og skal samkvæmt lögum nýr dómstóll, Landsréttur, taka til starfa 1. janúar 2018. Við þá vinnu sem hafin er við undirbúning á stofnun Landsréttar hefur komið í ljós að gera þarf lagabreytingar svo innleiðingarferlið gangi hnökralaust fyrir sig. Þá má búast við því að eftir því sem verkinu vindi fram geti komið til frekari aðlögunar og tæknilegra breytinga á löggjöf. Mun ég þá víkja nánar að efni þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu sem hér er til umræðu.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu var við gerð nýrra laga um dómstóla lagt til grundvallar að þegar skipað yrði í fyrsta sinn í embætti dómara við Landsrétt fengi nefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti dómara, nefnd sem starfar á grundvelli 4. gr. a gildandi laga um dómstóla, nr. 15/1998, og reglna um nefndina, það hlutverk að taka til meðferðar umsóknir um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn. Yrði meðferð umsókna á sama hátt og almennt gildir um meðferð umsókna í dag um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Þetta er í samræmi við það sem kveðið er á um í hinum nýju lögum um dómstóla sem taka gildi um næstu áramót.

Við nánari skoðun hefur komið í ljós að í 4. gr. a gildandi laga um dómstóla er umboð nefndarinnar takmarkað við umsækjendur um embætti héraðsdómara og hæstaréttardómara. Það þykir því rétt að kveða skýrt á um í bráðabirgðaákvæði við hin nýju dómstólalög að nefndin hafi það hlutverk að fjalla um umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn.

Þá er lagt til að sami háttur verði hafður á meðferð umsókna og er í gildandi lögum þannig að ráðherra sé óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefndin hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Á sama hátt og nú gildir getur ráðherra þó vikið frá því að skipa þann sem nefndin telur hæfastan ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra þar um. En eins og kveðið er á um í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV skal ráðherra leggja hverja og eina skipun dómara fyrir Alþingi til samþykktar. Verður gert ráð fyrir því að það verði gert í vor. Hér er því eingöngu verið að styrkja stoð undir þá framkvæmd sem gert var ráð fyrir að yrði við meðferð umsókna um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn þegar unnið var að nýjum dómstólalögum.

Virðulegur forseti. Þessi vettvangur er jafn góður og annar til að nefna það í þessu samhengi að þetta fyrirkomulag við val á dómurum er ekki hafið yfir gagnrýni, það hefur þvert á móti einmitt verið gagnrýnt. Þá er ég að vísa til þess verklags sem er bundið í lögum og reglum nefndar um val á dómurum sem lýtur að því að velja þann sem nefndin telur hæfastan og leggja fyrir dómara. Ég hef sjálf viðrað gagnrýni mína á þetta fyrirkomulag frá því að það var sett í lög árið 2010. Það kom vel til greina á þessu stigi málsins að breyta fyrirkomulaginu þannig að það yrði eins og áður gilti á ábyrgð ráðherra að velja dómara að undangenginni umsögn valnefndar. Það blasir auðvitað við að með því fyrirkomulagi sem nú er viðhaft er um verulegt framsal ráðherravalds að ræða þar sem ráðherra er í raun bundinn við ákvörðun nefndar um það a.m.k. sem lýtur að þeim sem nefndin telur hæfasta. Framsal valds er fyrir hendi þrátt fyrir að ábyrgð á skipan dómara sé eftir sem áður hjá ráðherra.

Ég taldi hins vegar að yfirlögðu ráði rétt að hafa fyrirkomulagið eins og það hefur verið undanfarin ár við skipun dómara við Landsrétt að þessu sinni enda er um viðamikla skipun að ræða. Skipaðir verða 15 dómarar í einu og ólíkt öðrum skipunum verða þær bornar undir Alþingi til staðfestingar. Ég vildi bara nota tækifærið við þessa umræðu að nefna það að ég hef fullan hug á því að leggja drög að breytingum á þessu fyrirkomulagi á næstu misserum, þ.e. verklagi hæfnisnefndar um dómaraembætti.

Virðulegur forseti. Rétt þótti að bíða með að auglýsa hin nýju embætti landsréttardómara þar til framangreindar lagabreytingar hefðu verið lagðar fyrir Alþingi sem við erum að gera hér í dag. Í því ljósi er lagt til að gerðar verði breytingar á tímasetningum í bráðabirgðaákvæðum við lögin svo betri tími gefist til að ljúka skipunarferlinu. Samkvæmt frumvarpinu skal ferlinu lokið eigi síðar en 1. júlí 2017 í stað 1. júní 2017 eins og lögin gera ráð fyrir. Miðað er við að nefndin skili ráðherra mati sínu á umsækjendum í byrjun maí, þá ætti þeirri sem hér stendur að gefast tími til að taka ákvörðun um að gera tillögu um dómara til Alþingis og Alþingi þá að sama skapi að gefast tími til að fara yfir tillögur ráðherra og taka ákvörðun um þær fyrir lok þings í vor sem gert er ráð fyrir að verði í lok maí. Að því loknu yrði svo í júní gengið endanlega frá skipun hvers dómara.

Það er óbreytt að dómarar skuli skipaðir frá 1. janúar 2018 að undanskildum forseta réttarins en lagt er til að dómarar verði búnir að kjósa sér forseta og varaforseta fyrir 20. júlí nk. í stað þess að forseti réttarins verði skipaður frá 1. júlí 2017.

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að endurtaka þessa setningu svo fari ekki á milli mála. Í stað þess að forseti réttarins verði skipaður frá 1. júlí 2017 er lagt til að hann verði skipaður frá 1. ágúst 2017. Það þarf jafnframt að seinka skipun í stjórn dómstólasýslunnar þar sem forseti Landsréttar mun eiga sæti í stjórninni. Stjórn dómstólasýslunnar verður þá skipuð frá 1. ágúst nk. í stað 1. júlí.

Í hinum nýju lögum um dómstóla er kveðið á um að aðsetur Landsréttar skuli vera í Reykjavík á sama hátt og kveðið er á um að aðsetur Hæstaréttar Íslands skuli vera í Reykjavík. Unnið hefur verið að því að finna hentugt húsnæði fyrir Landsrétt. Þar hefur bæði verið horft til framtíðarhúsnæðis og húsnæðis til bráðabirgða ef ekki vill betur. Fyrirhugað er að byggja nýtt húsnæði fyrir réttinn í Reykjavík og hefur nú um nokkurt skeið einkum verið horft til hins svokallaða Stjórnarráðsreitar í miðborg Reykjavíkur og hafinn er undirbúningur að því að búa réttinum nýtt framtíðarhúsnæði. Ljóst er hins vegar að það mun taka nokkur ár að byggja slíkt hús. Þá hefur reynst erfitt að finna hentugt húsnæði fyrir réttinn í Reykjavík. Það húsnæði sem hentar best þörfum réttarins, eftir mikla leit, er að Vesturvör 2 í Kópavogi. Þar sem kveðið er á um í lögum að Landsréttur skuli hafa aðsetur í Reykjavík er nauðsynlegt að gera þá breytingu sem hér er lögð til um að rétturinn megi tímabundið í fimm ár hafa aðsetur utan Reykjavíkur. Þá er ráðgert að að þeim tíma liðnum verði nýtt framtíðarhúsnæði fyrir réttinn tilbúið.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarps þessa. Breytingin á dómstólaskipaninni sem gildi tekur um næstu áramót er mikil réttarbót ef ekki ein sú stærsta sem við höfum gert á réttarkerfi okkar. Hefur þessi réttarbót verið unnin í mikilli sátt allra sem að því verki hafa komið, þar á meðal hér á Alþingi. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru í raun tæknilegs eðlis. Þess vegna vonast ég til þess að Alþingi afgreiði málið eins fljótt og unnt er svo innleiðingin tefjist ekki frekar og Landsréttur geti tekið hnökralaust til starfa 1. janúar 2018.

Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.