146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað ákaflega mikilvægt að skipan hins nýja dómstóls takist vel til með hliðsjón af alls kyns sjónarmiðum. Það er mjög mikilvægt að til starfa þar veljist fólk með ólíkan bakgrunn úr heimi lögfræðinnar, ekki bara núverandi embættisdómarar eða menn sem hafa sinnt dómstörfum heldur líka alls kyns öðrum lögfræðistörfum, lögmenn úr fræðasamfélaginu, sýslunnar menn og þar fram eftir götunum. Þetta eru allt sjónarmið sem hæfisnefndin eða valnefnd um hæfni dómara lítur til alla jafna og alveg örugglega er litið líka þar til ólíks bakgrunns eins og kynjasjónarmiða.

Ég er ekki talsmaður þess að menn bindi það í lög að velja eigi einstakling eftir kyni fremur en hæfni. Ég hef fulla trú á því að konur jafnt sem karlar uppfylli öll þau hæfisskilyrði sem eðlilegt er að leggja til grundvallar við skipan dómara.