146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja ráðherra út í þá hjáleið sem lagt er til að búin verði til fyrir ráðherra og fari í gegnum þingið til að skipa dómara. Af því að mannanna verk eru ekki hafin yfir gagnrýni, eins og ráðherrann benti svo réttilega á, langar mig að rifja upp að þegar málið var upphaflega til umræðu fyrir ári lögðu þingmenn fjögurra flokka fram breytingartillögu þess efnis að aukinn meiri hluta, tvo þriðju, þyrfti til að fara slíka hjáleið í gegnum þingið. Ég vænti þess nú ekki að ráðherrann láti það byrgja sér sýn að vera hluti af ríkisstjórn með minnsta mögulega meiri hluta þannig að einfaldur örlítill meiri hluti mundi duga ráðherranum til að koma sínum dómurum í gegnum þingið. Mig langar því að spyrja ráðherra frá sjónarhóli réttlætisins en ekki sinnar stöðu sem ráðherra í þessari þrjátíu og tveggja þingmanna ríkisstjórn, hvort henni þætti ekki athugandi að auka þann þingstyrk sem þyrfti til að fara hér í gegn með dómaraefni?