146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að tala á sömu nótum og kollegar mínir hér, hv. þingmenn, og ræða aðeins um kynjajafnrétti, sérstaklega hvað varðar valnefnd í skipan þessara dómstóla. Eins og ráðherra er kannski meðvituð um hafa stjórnvöld dómstólsins hunsað skýr ákvæði jafnréttislaga um skipan fulltrúa í valnefnd dómara allt frá árinu 2009 og hafa af þeim sökum borið við sjálfstæði dómsvalds, þ.e. þeim þykir þeir ekki þurfa að fylgja svo sannarlega settum lögum í landinu, sem eru jafnréttislög sem fela í sér að skipa eigi, ja ekki beinlínis jafnt en alla vega að leitast við að skipa það kynið sem hallar á frekar ef um tvo jafn hæfa einstaklinga er að ræða. Þetta er eitthvað sem valnefndir í dómstólaráði hafa hunsað og borið við sjálfstæði dómsvalds. Kom ekki til greina hjá hæstv. ráðherra að skoða við gerð þessa frumvarps að tryggja að það séu líka jöfn hlutverk karla og kvenna í þessum valnefndum, því að við sjáum það bara á skipan í Hæstarétt að karlar velja karla í dómarastól?

Svo hef ég aðra spurningu sem víkur beint að ræðu hæstv. ráðherra rétt áðan þar sem hún vék að því að hún hafi fyrirhugaðar breytingar á verklagi dómaranefndar við val á dómurum. Hvers konar breytingar er hæstv. ráðherra að vísa í? Og er ætlun hennar að koma þeim í gegn fyrir skipan 15 dómara í Landsrétt? Stendur þá ekki til að bæta fjölbreytni í nefndinni? Hvaða reglur eru það nákvæmlega sem hæstv. ráðherra er að vísa í? Er það reglugerð 620/2010 (Forseti hringir.) eða eru það lög um dómstóla sjálfa?