146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka um margt gagnlegar umræður um það frumvarp sem liggur fyrir okkur. Mig langar að ræða nokkur atriði sem mér finnst mikilvæg í því samhengi. Ég vil byrja á að vísa í fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að efla traust á grunnstoðum samfélagsins, þar á meðal á dómstólum, og í raun og veru ræða frumvarpið í því ljósi. Í mínum huga er mjög mikilvægt að hafa þrennt í huga þegar kemur að því að efla traust almennings gagnvart dómstólum. Hér erum við að tala um heilan nýjan dómstól. Það skiptir máli hvernig að honum er staðið og hvernig hann er skipaður og að allrar sanngirni sé gætt við það.

Ég vil nota þetta tækifæri til að minna hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn á að val á dómurum á að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins í allri sinni mynd. Ásýnd réttarvörslukerfisins á að vera hlutlaus, réttsýn og sanngjörn, gæta þarf þess að óeðlileg sjónarmið ráði ekki för við skipan dómara og að mat á hæfni dómara sé ekki unnið eftir geðþótta, sérstaklega nokkurra karllögfræðinga í lokuðum kompum. Í því samhengi vil ég fá að vísa í umsögn Áslaugar Björgvinsdóttur, fyrrverandi héraðsdómara, um þingmál 615, frumvarp til laga um dómstóla, þar á meðal yfirlit yfir helstu athugasemdir hennar á fundi með allsherjar- og menntamálanefnd þann 19. apríl 2016 þar sem hún hafði ýmislegt athyglisvert að segja um fyrirhugaðar breytingar á dómstólalögum og fyrirhugað fyrirkomulag á skipan Landsréttar og vali í hann. Í umsögn Áslaugar kemur fram, með leyfi forseta:

„Stjórnendur dómstólanna hafa hundsað skýr ákvæði jafnréttislaga við skipan fulltrúa í valnefnd dómara frá árinu 2009 og báru við sjálfstæði dómsvalds.“

Hún segir að konur vanti í Hæstarétt en eins og hv. þingmaður benti á áðan höfum við tilmæli frá Sameinuðu þjóðunum frá 7. mars til stjórnvalda um tafarlausa fjölgun kvenna í Hæstarétt. Enn fremur segir hún:

„Ekki er tryggt að valnefnd dómara vinni faglega en undanfarin ár hafa niðurstöður hennar og síbreytilegar áherslur við mat á hæfni umsækjenda sætt gagnrýni og jafnvel þótt hafa á sér geðþóttayfirbragð. Ljóst má vera að stærsti hluti 15 dómara við Landsrétt mun koma úr röðum héraðsdómara. Héraðsdómstólarnir eru langt í frá í stakk búnir til að missa alla færustu dómarana á einu bretti.“

Og loks, svo ég víki aftur að jafnréttinu:

„Ekki er tryggt að jafnréttislög gildi við skipan í allar nefndir og ráð dómsvaldsins. Áfram verður í boði geðþóttavald dómstjóra við úthlutun mála til dóma. Hvorki er tryggt að stjórnsýslulög gildi við stjórnsýslu dómstóla né raunhæft eftirlit með stjórnendum dómstólanna og ábyrgð stjórnenda þeirra. Ítrekuðum athugasemdum umboðsmanns Alþingis allt frá árinu 2003 er ekki svarað með frumvarpinu.“

Með hliðsjón af síðustu athugasemdinni langar mig að ræða það sem mér finnst líka mjög mikilvægt að muni eiga sér stað og það er að stjórnsýsla dómstólanna falli undir stjórnsýslulög og upplýsingalög, rétt eins og önnur stjórnvöld og aðrar stjórnvaldsákvarðanir. Hér finn ég mig knúna til að endurtaka mig og biðja um að þeim báknum á Íslandi sem taka stjórnvaldsákvarðanir sé gert að fylgja stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, en það á ekki við um stjórnsýsludómstóla á Íslandi í dag.

Mér þykir lag við heildarendurskoðun á þessum málaflokki og við sköpun heils nýs dómstigs að við höfum í huga að mjög mikilvægt er hvað varðar réttarvernd þeirra einstaklinga sem taka þátt í dómskerfinu og einnig réttarstöðu almennings gagnvart þessum mikilvæga hluta ríkisvaldsins að upplýsingalög og stjórnsýslulög gildi. Því vil ég beina því til hæstv. ráðherra að íhuga hvort mætti ekki bæta því inn, rétt eins og gerðist við meðferð máls um kjararáð, að stjórnsýslu dómstólanna sé gert að fylgja stjórnsýslulögum og upplýsingalögum.

Fleira hef ég ekki um málið að segja.