146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður er ég aftur í sömu sporum og þegar við ræddum stjórnsýsluna í kringum kjararáð fyrir jól. Ég tek heils hugar undir hugmyndir hennar um að fella Landsrétt undir stjórnsýslu- og upplýsingalög og auðvitað ættu jafnréttislög að gilda þar eins og annars staðar í landinu. Hæstv. ráðherra vék að því í einu af andsvörum sínum að Alþingi væri ekkert alltaf barnanna best í að fara eftir jafnréttislögum og það er alveg rétt og er alls ekki til sóma. Við eigum alveg eins og aðrir í þessu landi að fylgja lögum, sérstaklega lögum sem varða jafn mikilvæga grunngerð samfélagsins og jöfn staða karla og kvenna.

Ég vil því taka undir með þingmanninum og þakka henni líka fyrir að vekja athygli á umsögn Áslaugar Björgvinsdóttur héraðsdómara þegar málið var til upphaflegrar umfjöllunar því þar kemur margt fram sem væri til bóta við þessa skipun mála. Mig langar rétt að spyrja þingmanninn, því að við erum alltaf að spá í hæfið, það gerðist líka í kjararáðsmálinu, hver er hæfastur og hver skilgreinir það, og eins og varðandi kjararáð eru það voðalega oft karlkyns lögfræðingar sem halda um flesta spotta í þessum málum, hvort hún sjái einhverja leið til að vinna betur úr þeim málum þannig að þetta svið samfélagsins eins og önnur væri meira í takt við samfélagið í heild.