146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt ef hv. Brynjar Níelsson telur sig vera fórnarlamb aðstæðna eða kerfisins í heild sinni. En ég saknaði þess að hann kæmi ekki með lausnamiðaða ræðu um það hvernig sýn hans er á það hvernig uppræta megi þennan kynjahalla í dómskerfinu. Ef hann telur að kynjahallann sé eingöngu að finna í Hæstarétti, hverjar eru þá hugmyndir hans um að leysa þann kynjahalla? Eigum við þá bara að bíða í áratugi eftir því að þetta leysist af sjálfu sér?

Hv. þm. Brynjar Níelsson sagði áðan að ábyrgðin á skipun valnefndar ætti eingöngu að vera á höndum dómsmálaráðherra eins og hv. þingmaður sagði í andsvari sínu við hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Hvernig getum við þá borið von um breytingar ef skipun valnefndar á eingöngu að vera á höndum dómsmálaráðherra sem lýsir því yfir í ræðustól að hún telji það ekki (Forseti hringir.) vera til velfarnaðar að fylgja kynjasjónarmiðum við val á fólki í valnefndina?