146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni er tíðrætt um að hæfni eigi að ráða skipan mála og má alveg taka undir það. En ekki má loka augunum fyrir því að þessi hæfni er ekki hlutlaus gjöf náttúrunnar. Eins og dæmið sem ég nefndi áðan um að hæstaréttardómarar hefðu eingöngu kallað til karla sem varadómara þennan veturinn. Þetta er reynsla sem telur inn í hæfni þegar kemur að skipan í dómaraembætti. Þetta viðheldur skekkju í kerfinu ef ekkert er að gert. Ég vona að við þurfum ekki að bíða þess að hv. þm. Brynjar Níelsson og félagar hans úr lagadeildinni sem voru samtíða honum hrökkvi upp af með að sjá þetta lagfært, vona að þetta gangi hraðar.

Annað sem þingmaðurinn kom inn á var að tilnefningaraðilar hefðu ekki getað annað en tilnefnt eins og þeir gerðu af því að þeir áttu bara að tilnefna einn í nefndina, karl eða konu. Nú vill svo til að löggjafinn getur verið svolítið klókur. Þess vegna stendur í lögum nr. 50/2016 um Landsrétt í 11. gr., með leyfi forseta:

„Tilnefningaraðilar skulu tilnefna bæði karl og konu, …“

Ráðherra skuli síðan taka tillit til jafnréttislaga og velja endanlega í nefndina.

Þess vegna langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann átti sig á því hvers vegna vísað sé til laga um dómstóla nr. 15/1998 í þessu frumvarpi, hvers vegna verið sé að teygja sig yfir í önnur lög (Forseti hringir.) í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar?