146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:37]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má ekki spyrja mig svona erfiðra spurninga hér. Ég var bara að tala um hvernig þetta var þegar ég var í nefndinni, og var gagnrýninn. Það er þá búið að leiðrétta þetta í lögunum núna 2016 væntanlega með þessa skipan. En það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni og ég hef gagnrýnt það sjálfur að láta slík atriði ráða hafi einhver verið varadómari hér eða þar í einhverja mánuði eða eitthvað slíkt, það segir mér ekki mikið um hæfni manns þó að hann hafi verið hist og her. Hvað með t.d. lögmann sem hefur verið lögmaður alla sína tíð með miklum glæsileik og miklum gæðum? Þá tikkar hann ekki inn í boxið einhvers staðar. Slíkt hæfnismat fyrir mér er ekki neitt hæfnismat, ég tek alveg undir það.

Þess vegna hef ég verið gagnrýninn á þessa nefnd. Það er full ástæða til að gagnrýna hana. Stundum finnst manni nefndin svona láta tikka í boxið þegar hentar og stundum ekki og lætur misjafna hluti ráða. Verður þetta ekki gegnsætt? Virkar eins og geðþóttaákvörðun þó að hún þurfi ekki að vera það. Það er af því að menn bara meta þetta svona. En þetta opnar auðvitað fyrir mikla gagnrýni. Ég hef svo sem ekki fylgst með því hvernig þeir hafa tekið þessa varadómara inn, mér hefur sýnst að það hafi aðallega verið dómstjórarnir sem eru kosnir af dómurum í hverjum dómstól. En auðvitað finnst mér að það eigi í sjálfu sér ekki að tikka í slíku mati síðar. Ég get alveg tekið undir þá gagnrýni hvað það varðar.

En ég legg áherslu á að við tryggjum bæði gæði dómaraefnanna og fjölbreytileika eins og því verður við komið, að hæfnismatinu undanskildu.