146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bið hv. þingmann forláts á að hafa spurt hann erfiðrar spurningar. En það gleður mig dálítið að sjá að honum þyki þetta undarleg ráðstöfun að vísa í 20 ára gömul lög frekar en þau lög sem hér eru til umfjöllunar. Ég reikna því með að það verði tekið til athugunar í nefndinni hvort ekki væri nær að valnefnd um dómara í Landsrétt sé sú sem er talað um í lögum um Landsrétt.

Örstutt vegna þess að þingmaðurinn vék að því að það væri rugl að í nefndina skipaðist fólk sem ekki væri lögfræðimenntað. Þá langar mig að spyrja þingmanninn hvort honum þyki jafn mikið rugl að ráðherra sem tekur ákvörðunina sé ekki löglærður og hvort honum þyki jafnframt, ef ráðherrann kemur með þessi mál til samþykktar Alþingis, að við sem hér sitjum og erum ekki löglærð ættum að sitja hjá við þær afgreiðslur eða hvort okkur sé náðarsamlega (Forseti hringir.) leyfilegt að hafa skoðun á því hverjir skipa þennan dómstól?