146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

viðbrögð við skýrslu um Kópavogshæli.

[11:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég held að ég geti talað fyrir hönd okkar allra þegar ég segi að við séum öll slegin yfir upplýsingum og lýsingum sem komu fram í skýrslu vistheimilanefndar um aðbúnað og illa meðferð á börnum á Kópavogshæli. Mig langar að taka undir með þeim sem sagt hafa til að mynda í fjölmiðlum, svo sem með Gerði Aagot Árnadóttur, fyrrverandi formanni Þroskahjálpar, að það verði að taka þessa skýrslu og nota hana til þess að bregðast við í nútímanum. Þess vegna vil ég beina nokkrum spurningum til hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, því að málin í nútímanum eru jú á hans könnu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðuneytið hafi sett í gang vinnu til þess að bregðast við ábendingum sem eru settar fram í skýrslunni um það sem þarf að bæta í málaflokki fatlaðs fólks og hvað ráðherrann hyggist gera til að tryggja fötluðu fólki mannréttindi á öllum sviðum í samræmi við sáttmála sem Ísland er aðili að. Eins hvort ráðherra ætli að setja af stað rannsókn á ofbeldi gegn fötluðum börnum í samtímanum því að fjölmargar rannsóknir sýna að fötluð börn eru í meiri hættu á að verða beitt ofbeldi en önnur börn.