146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

viðbrögð við skýrslu um Kópavogshæli.

[11:16]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég náði kannski ekki að svara öllum spurningunum í fyrra svari en það sem fyrir dyrum stendur og er til skoðunar innan ráðuneytisins er að setja á sérstaka eftirlitsskrifstofu innan þess sem færi sérstaklega með þennan málaflokk. Þetta hefur verið til skoðunar í kjölfar ábendinga m.a. frá umboðsmanni Alþingis um að það fyrirkomulag okkar sé ekki fullnægjandi. Það ber okkur auðvitað að taka alvarlega.

Þegar kemur að umræðunni um réttargæslumenn er alveg rétt að við þurfum að efla það kerfi enn frekar. Það er mat þeirra sem best til þekkja að það sé mjög vanfjármagnaður liður og að við þurfum að bæta úr því til þess að styrkja þetta mikilvæga úrræði fatlaðra einstaklinga í ljósi þessarar niðurstöðu. Þannig að já, það stendur fyrir dyrum.

Að lokum varðandi síðustu spurningu um hvort komi til greina að setja af stað sérstaka rannsókn á ofbeldi gagnvart fötluðum einstaklingum í nútímanum. Það tel ég að komi fyllilega til greina. Þetta er sá málaflokkur sem við þurfum að sýna mikinn metnað í (Forseti hringir.) og hafa stöðugt eftirlit með.