146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

stefnumörkun í fiskeldi.

[11:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Forseti. Ég þakka þessa spurningu líka, hún er mjög áhugaverð. Hún varðar það að fiskeldi getur í raun bara átt sér stað við Íslandsstrendur á ákveðnum svæðum þar sem firðir eru nógu djúpir til þess að hafa það burðarþol sem til þarf. Það eru vissulega takmörkuð gæði. Þetta er ekki eins og sumir vilja láta að það sé hægt að reka fiskeldi í öðrum hverjum firði, það er ekki svoleiðis. Það er sérstaklega á Vestfjörðum og fyrir austan líka. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé ekki þannig með þessi leyfi að það sé bara svona fyrstur kemur fyrstur fær. Við þurfum að skoða það miklu betur að það sé ekki sá sem fyrstur er í röðinni sem fær endilega starfsleyfið, einhver er númer tíu en það fá bara níu. Ég hef því beðið Umhverfisstofnun að skoða þessi mál og forstjórinn þar hefur tekið mjög vel í það. Til þess þyrfti að ég tel einhverja lagabreytingu en það er ekki komin niðurstaða í því.

Hvað varðar gjöld, (Forseti hringir.) auðlindagjöld, á þessa atvinnugrein þá finnst mér að við eigum að skoða mjög alvarlega að leggja þau á.