146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

ívilnandi samningar vegna mengandi stóriðju.

[11:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mér finnst þetta enn svolítið óljóst. Þegar er um að ræða uppbyggingu á atvinnulífi um land allt er mjög mikilvægt að lagaramminn sé skýr og fyrirsjáanlegur og ekkert í ferlinu sé háð geðþótta ráðherra eða annarra. Innlendir sem erlendir fjárfestar þurfa á skýrum og fastmótuðum reglum að halda og skýrum kröfum, t.d. um umhverfismál. Mikilvægt er að þær séu þekktar, gagnsæjar og fyrirsjáanlegar svo allir viti hvernig hægt sé að uppfylla þær. Því er svo mikilvægt að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin svari afdráttarlaust hvernig og á hvaða lagagrundvelli hún ætlar að framfylgja því að mengandi stóriðja fái ekki fjárfestingarsamninga við stjórnvöld þótt hún uppfylli öll skilyrði þess samkvæmt núgildandi lögum.

Fá þeir sem leita nú upplýsinga skýr svör um lög, reglur og viðmið sem setja mörkin milli mengandi stóriðju og annarra verkefna? Ég vil líka spyrja um samspilið á milli atvinnuvegaráðuneytisins (Forseti hringir.) og umhverfisráðuneytisins þar sem það er atvinnuvegaráðuneytið sem fer með málið.