146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

reglur um atvinnuleysisbætur.

[11:37]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Það er ekki svo þótt ríkisstjórnin sé ekki með lagafrumvörp fyrir þingi til að grípa inn í þessa kjaradeilu að hún sé afskiptalaus af deilunni, þvert á móti hefur verið fylgst vel með og það kannað með hvaða hætti hægt er að styðja aðila til lausnar. Heilt yfir segi ég einfaldlega að þessi deila og það hvernig hún hefur dregist á langinn og hversu fá úrræði við höfum í raun og veru í vinnulöggjöf okkar til að losa um svona hnúta eða höggva á þegar þeir koma upp, er einmitt til marks um mikilvægi þeirrar endurskoðunar sem er meðal aðila vinnumarkaðarins á vinnubrögðum í kringum kjarasamninga, á þeirri umgjörð sem þeim er mótuð, og einmitt að í löggjöfinni og helst þá á forræði ríkissáttasemjara séu einfaldlega fleiri úrræði til þess að reyna að styðja við úrlausn og sátt í svona málum. Þar skortir verulega upp á og þegar við berum okkar saman við nágrannalönd okkar sjáum við að embætti ríkissáttasemjara hefur umtalsvert fleiri úrræði í handraða sínum en hér hefur tíðkast. Það held ég að við þurfum að taka til skoðunar.