146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:00]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áður en ég kem að eiginlegu umræðuefni langar mig til þess að vekja athygli þingheims á þeim tímamótum sem við upplifum akkúrat núna. Hér situr í stóli forseta Alþingi innflytjandi, að ég held í fyrsta sinn. Mér finnst það einstaklega ánægjulegt og vil óska virðulegum forseta til hamingju með það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Nú að efninu. Í 9. gr. er talað um akstur sérútbúinna bifreiða. Hún hljómar svo, með leyfi forseta:

„Samgöngustofa veitir leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða, t.d. til fjallaferða, enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri farþega en níu. Skilyrði slíks leyfis er að það sé notað í tengslum við þjónustu við ferðamenn og að umsækjandi hafi almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr.“

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort til greina komi að útvíkka það ákvæði eða koma inn á öðrum stað ákvæði sem leyfa mundi akstur bifreiða sem rúma færri farþega en níu en eru þó ekki sérútbúnar. Með öðrum orðum, ósköp venjulegar fólksbifreiðar.