146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:05]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil hugrenningar hv. þingmanns mætavel. Við gerð þessa frumvarps hafa svo sem komið fram hugmyndir frá ferðaþjónustunni um breyttar áherslur. En eins og ég kom inn á fyrri ræðu minni var tekin sú ákvörðun, að gefnu tilefni út af þeim ágreiningi sem um þetta mál hefur verið og mikilvægi þess að koma því í gegnum þingið núna, að hafa þetta eins hreint innleiðingarfrumvarp og kostur er. Svo geta menn haft skoðanir á því hvort þetta sé rétt orðalag eða ekki. Ég hef engar athugasemdir við það.

Ég ítreka það sem skoðun mína í svari til hv. þingmanns að mér finnst mikilvægt að nefndin skoði þetta vel. Frumvarpið verður auðvitað sent til umsagnar og Samtök ferðaþjónustunnar og fleiri munu væntanlega koma fyrir fund nefndarinnar. Ég veit að hv. þingmaður á þar sæti og getur þá fylgt (Forseti hringir.) þessu máli eftir.