146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það mál sem hv. þingmaður reifar hér er viðkvæmt og hefur valdið ágreiningi. Það er einmitt verið að reyna að mæta þeirri gagnrýni sem verið hefur af hálfu sveitarfélaganna og reynt að ná einhverri víðtækari sátt um útfærsluna. Það er í raun að tilhlutan Landshlutasamtaka sveitarfélaga sem lögð er mikil áhersla á leiðakerfið sem er hugsað þannig að þar sé verið að setja saman þær leiðir sem eru notaðar mikið og geta borið uppi kostnað við það að hafa leiðakerfið víðtækara þannig að það þjóni sem víðast í kjördæmunum.

Landshlutasamtök sveitarfélaga munu skilgreina þessi leiðakerfi og eftir því verður unnið. Litið er svo á af hálfu ráðuneytisins að hér sé verið að styrkja möguleika sveitarfélaganna einmitt til þess að geta haldið uppi og eflt almenningssamgöngur.