146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svarið og vona að sú sé raunin og hlakka til að sjá útfærsluna á breytingunni.

Það er annað sem kvartað hefur verið yfir í framkvæmdinni undanfarið, þ.e. að þeir sem hafa einkaleyfi séu ekki nægilega vel varðir fyrir öðrum sem fara sömu leið og virða ekki einkaréttinn.

Hæstv. ráðherra fór yfir það mál áðan og eins og ég skildi hann á að herða á viðurlögum ef gengið er á hlut einkaréttarhafa.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Verður fælingarmátturinn nægur? Núna er það meira þannig að sagt er: „skammastu þín“, og svo gerir fólk þetta bara aftur og þá er aftur sagt: „skammastu þín“. Mun þetta hafa þann fælingarmátt að fólki eða fyrirtækjum detti ekki í hug að ganga á rétt þess sem er með leyfið?