146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:12]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að taka undir árnaðaróskir til hæstv. forseta og ég dáist að hugrekki hennar.

Hér er til umræðu frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ég óska honum líka til hamingju með frumvarpið. Þetta er eitt það fyrsta af mörgum sem hann á eftir að koma með inn í þingið. Ég ætla ekki að taka langan tíma til að fara yfir frumvarpið núna. Það hefur komið ram áður og ég hef sagt skoðanir mínar á því. Hér kemur það fram lítið breytt.

Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir okkur að ná samstöðu um að frumvarpið verði til hagsbóta fyrir þá sem vilja njóta almenningssamgangna í landinu sem og fjölda fleiri atriða sem hér koma fram. Ég ætla aðeins að skerpa á því að ég legg mikla áherslu á þær breytingar sem Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög leggja til að gerðar verði á frumvarpinu, þ.e. að við tryggjum hagsmuni þeirra, við tryggjum hagsmuni fólksins í hinum dreifðu byggðum, að strætókerfin haldi, að kerfin verði ekki brotin upp. Það yrði ómögulegt fyrir strætókerfið í Reykjavík ef leið 1 og 6 yrðu tekin út, þá væri nú lítið eftir í kerfinu og sveitarfélagið sæti uppi með þær leiðir sem gæfu lítið af sér. Við þurfum því að tryggja hagsmuni fólksins í landinu með frumvarpinu.

Almenningssamgöngur eru ótrúlega mikilvægar. Við sjáum það víða í kringum okkur. Unga fólkið sækir skóla í þéttbýliskjörnunum. Um allt Suðurland eru æðar kerfisins upp í sveitirnar og nemendur eru keyrðir í Fjölbrautaskólann á Selfossi á hverjum morgni, auk þess sem hópur ungs fólks á svæðunum hér í kring, allt frá Borgarnesi, Reykjanesi og sveitunum austur á Suðurland, sækir háskólanám til Reykjavíkur og nýtir til þess almenningskerfið. Það kemur líka til góða þegar húsnæðisskortur er jafn mikill og hann er. Unga fólkið getur búið lengur í heimahúsum hjá foreldrum sínum og almenningskerfið tryggir að hægt sé að hafa það þannig. Það er náttúrlega eins með unga fólkið og gamla fólkið, eftir því sem fólk getur verið lengur heima þá er það betra.

Ég held að með því að við tryggjum þessa hagsmuni — nefndin mun að sjálfsögðu fara yfir það. Þar mun ég ræða þetta mál frekar. Ég fagna því að frumvarpið er komið fram. Við sem erum í umhverfis- og samgöngunefnd hlökkum til að takast á við það og eiga gott samstarf við ráðherrann.