146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt að taka undir heillaóskir til ráðherra um fyrsta frumvarpið og forseta með fyrstu embættisverkin. Það mál sem við ræðum hér hefur kannski það yfirbragð á sér að vera ekki stórt mál, einhver EES-innleiðing, en því fer fjarri, þetta er nefnilega risastórt mál og snertir á ansi mikilvægum þáttum í samfélagi okkar sem eru almenningssamgöngur. Ég fagna því að hafa heyrt ráðherra tala um mikilvægi þeirra í ræðustól áðan.

Það er dálítið bagalegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að við séum að ræða þetta mál núna. Það er búið að velkjast í kerfinu síðan árið 2012 frá því að fyrst var farið að vinna að því og kom hér fram á fyrri þingum eins og ráðherra hæstv. fór hér yfir áðan. En svo erum við að ræða þetta mál núna breytt frá fyrri skiptum, en umhverfis- og samgöngunefnd á að koma saman eftir tæp þrjú korter til að taka það til umræðu á aukafundi. Flýtirinn er því töluverður, sem er aldrei gott. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór ágætlega yfir það áðan að það er ekki bara varhugavert að trassa að innleiða EES-reglugerðir, það er líka varhugavert að innleiða þær rangt. Það þarf því að vanda til verka varðandi það.

Ráðherra segist hafa ágætistilfinningu fyrir málinu. Það er gott. Ég veit ekki hvað það þýðir nákvæmlega. Ég veit ekki hvort ég get haldið út á þessi mið með það eina öryggisnet að ráðherra hafi ágætistilfinningu fyrir því. En þetta er mál sem við þurfum að skoða vel. Hæstv. ráðherra sagði áðan í ræðustól að almenna reglan varðandi leyfi til aksturs væri að þau yrðu boðin út. Eins og rakið var í ræðustól áðan eru áhöld um hvort það sé nauðsynlegt. Það er eitt af því sem þarf að skoða.

Almennt um almenningssamgöngur langar mig að segja það og horfa sérstaklega á þann þátt frumvarpsins að því miður hefur umhverfi þeirra verið óljóst of lengi. Í umsögn um forvera þessa frumvarps, sem lagt var fram á Alþingi árið 2015, umsögn frá Strætó bs., var sérstaklega lagt til að það frumvarp sem þá var aðeins til laga um farþegaflutninga á landi, það fjallaði sérstaklega um almenningssamgöngur og farþegaflutninga, heiti þeirra væri þannig. Að mörgu leyti er skynsamlegt að skilja þetta tvennt að, annars vegar almenningssamgöngur, sem eru hluti af þeirri grunnþjónustu sem hið opinbera á að bjóða borgurum sínum upp á, og svo hins vegar almenna farþegaflutninga eða fólksflutninga, eftir því hvort við aðhyllumst EES- eða ESB-orðfærið eða íslensku hefðina, að skilja þarna á milli því að það hefur valdið vandkvæðum að þessu hefur verið grautað saman og orðið til þess að um þessi mál náðist ekki sátt á síðasta kjörtímabili.

Í greinargerð með frumvarpinu er talað um einkaréttinn, þ.e. samninga um einkaleyfi í öllum landshlutum og lagt til að það fyrirkomulag sem áður hét einkaleyfi verið kallað einkaréttur. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Hugsunin með hinu nýja fyrirkomulagi var að færa skipulag almenningssamgangna til staðbundinna stjórnvalda sem hluta af grunnþjónustu nærsamfélagsins og skapa jafnframt heilsársrekstrargrundvöll fyrir þessa þjónustu með því að einkaleyfishafar hefðu, í samvinnu við sveitarfélög á hverjum stað, nokkurt frjálsræði um að skipuleggja þjónustuna. Markmið með þessum breytingum var að tryggja góða almannaþjónustu þannig að til yrði raunhæfur valkostur við einkabílinn.“

Þarna komum við akkúrat að þessu hlutverki almenningssamgangna, sem ég kom inn á, sem grunnþjónustu hins opinbera. Þar segir að því kerfi verði ekki kollvarpað nema gegn greiðslu bóta til þeirra aðila sem nú starfa á grundvelli einkaleyfis.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir það er ljóst að löggjafanum er heimilt að skilgreina nánar hvað felst í gildandi réttindum, enda kann að felast í hvers konar einkarétti inngrip í samkeppnisaðstæður á frjálsum markaði og takmarkanir á atvinnufrelsi annarra aðila er starfa á sama markaði.“

Það er þessi tónn ásamt orðum hæstv. ráðherra sem ég vitnaði til áðan um almennu regluna, að þetta verði boðið út. Það er tónn markaðarins, samkeppnisaðstæður á frjálsum markaði, sem eru góðar fyrir sinn hatt, sem mér finnst varhugavert að sé ráðandi í umræðum um almenningssamgöngur almennt. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson talaði hér á undan mér og kom stuttlega en vel inn á leiðakerfi almennt, sérstaklega í Reykjavík. Ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um það.

Eins og krafan hefur verið í þeim frumvörpum sem við höfum verið að fást við í þessum sal og í stjórnkerfinu síðustu ár eru ekki algildar aðstæður sama hvar maður er á landinu. Það er kannski öðruvísi staða uppi í hinum dreifðari byggðum þar sem jafnvel er verið að flytja ferðamenn á milli staða og hins vegar svo á höfuðborgarsvæðinu þar sem eitt hefur gilt á öðrum staðnum og annað á hinum, því að krafan sem hefur oft verið uppi af hálfu stjórnvalda hefur verið sú að leiðir megi ekki bera sig, þær megi ekki skekkja samkeppnisgrundvöll gagnvart öðrum sem eru í þeim rekstri. Það hefur, eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn, á þýtt að ef það ætti að „praktísera“ það, svo ég leyfi mér að sletta, með leyfi forseta, myndi það þýða að þær leiðir í kerfi Strætó sem bera sig; leið 1, leið 6, þyrfti að bjóða út einkaaðilum til reksturs, en aðrar leiðir sem ekki bera sig yrðu á hendi hins opinbera. Gróðinn yrði einkavæddur en kostnaðurinn yrði á herðum almennings.

Hæstv. ráðherra hefur fullvissað okkur í umræðu um þessi mál um að svo sé ekki í þessu tilfelli. Ég treysti orðum hans og mun sérstaklega beina sjónum mínum að því í vinnu nefndarinnar og áframhaldandi vinnu varðandi þetta frumvarp og að sjálfsögðu hlusta vel á og lesa vel athugasemdir þeirra umsagnaraðila sem fá munu frumvarpið til umsagnar.

Þetta er kannski í hnotskurn það sem verið hefur vandamálið almennt í því umhverfi almenningssamgangna sem við búum við. Þetta er það sem stundum hefur sett sveitarfélögunum ákveðnar skorður. Fyrir örfáum árum var það þannig að sveitarfélög á Suðurnesjum vildu gjarnan koma upp strætókerfi sem næði til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eða Keflavíkurflugvallar, og ferjaði farþega jafnvel til höfuðborgarinnar og væri þá leið sem skilað gæti mjög góðum hagnaði. Þann hagnað vildu sveitarstjórnarfulltrúar á Suðurnesjunum, hvaðan úr flokki sem þeir komu, síðan nýta til að byggja upp almennilegt net almenningssamgangna á svæðinu. Það reyndist hins vegar erfitt og sérstaklega þegar það var þvert gegn pólitískum vilja þess ráðherra sem þá fór með málaflokkinn, af því að þarna erum við farin að rekast á almannahagsmuni, sem eru góðar almenningssamgöngur, og svo hagsmuni einstakra fyrirtækja, sem hafa lifibrauð af því að keyra með farþega sömu leið.

Það er því hið tvíþætta eðli málsins hringir ákveðnum viðvörunarbjöllum og segir okkur að við þurfum að skoða þetta mál sérstaklega vel, því að það þarf að vera algjörlega á hreinu að í þessu frumvarpi, þótt innleiðingarfrumvarp sé, og kannski sérstaklega út af því, sé ekkert sem hamli því að hið opinbera geti boðið upp á umfangsmikla og góða þjónustu á sviði almannasamgangna.

Í greinargerð með frumvarpinu segir til að mynda, með leyfi forseta:

„Skv. 1. tölul. 2. mgr. skal einkaréttur þó aðeins veittur ef sýnt er fram á að þjónusta í reglubundnum farþegaflutningum á viðkomandi svæði og leiðum eða leiðakerfum sé nauðsynleg vegna almennrar, efnahagslegrar þýðingar hennar og að hún verði ekki rekin á viðskiptagrundvelli þannig að lágmarksþjónusta sé tryggð.“

Hér dönsum aftur á þeirri línu að veita annars vegar grunnþjónustu til borgaranna og hins vegar að troða ekki þeim einkafyrirtækjum um tær sem hagnast á svipaðri þjónustu. Annað hefur verið varðandi flutning til og frá ferðamannastöðum. Strætó bs. gagnrýndi það á sínum tíma þegar frumvarpið kom fram að í raun sé hægt að skilgreina hvaða áfangastað sem er sem ferðamannastað og/eða þjónustustað. Þá sé farið að grauta því saman að keyra annars vegar með ferðamenn í hagnaðarskyni og hins vegar að veita þjónustu almenningssamgangna.

Þetta er umfangsmikið frumvarp. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á það í andsvari af hverju ekki hefði tekist að verða við þeim athugasemdum sem t.d. Strætó bs. og Samband íslenskra sveitarfélaga komu fram með við forvera þessa frumvarps á fyrri stigum. Ráðherra kom stuttlega inn á það. Við munum væntanlega ræða þau mál frekar í umhverfis- og samgöngunefnd og svo hér í þingsal. Ég ítreka að þetta er risastórt mál og í litlum lagagreinum, einstaka töluliðum, einstaka setningum, einstaka orðskýringum sem fylgja þessu frumvarpi, geta leynst alls kyns pyttir sem hægt er að falla í ef leiðarljósið á bak við frumvarpið á fyrst og fremst að vera það að veita góðar almenningssamgöngur á vegum hins opinbera.

Þess vegna hef ég oft velt því fyrir mér, og nú kemur kannski í ljós vankunnátta mín í þessum þingsal og það hversu nýr ég er hér, ég veit það ekki, en ég ætla bara að leyfa mér að hugsa upphátt þar sem ég hef athygli ráðherrans óskipta, hvort ekki eigi að aðskilja þessa þætti eins vel og unnt er, hvort ekki eigi jafnvel að vera sérlög um almenningssamgöngur og önnur um fólksflutninga eða farþegaflutninga á landi almennt. Þó að það virðist kannski vera það sama í grunninn að aka um með fólk milli tveggja staða í langferðabifreiðum er eðli þjónustunnar gjörólíkt. Annars vegar er það einkafyrirtæki, sem huga eðlilega að því að auka hagnað sinn sem mest, og hins vegar er það sjálfsögð grunnþjónusta ríkisins.

Ég hef skautað yfir þetta mál ansi létt. Því var útbýtt hér á þriðjudaginn. Það er talsvert umfangsmikið. Þar er vísað til margra laga og reglugerða og EES-tilskipana og þar er yfirferð yfir söguna. Það þarf að skoða það ítarlega. Málið var tekið hér til umræðu fyrir rúmum hálftíma síðan, og eins og ég kom inn á áðan á nefndin að koma saman eftir hálftíma til að fjalla um málið.

Flýtir af þessu tagi er ekki heppilegur en það er þá meira á okkar ábyrgð að vanda vel til verka.