146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að við séum nú að ræða frumvarp um almenningssamgöngur. Ég ætla fá að kalla það svo þótt það beri annað heiti. Ég vil óska ráðherra til hamingju með þetta fyrsta frumvarp. Mér finnst vel við hæfi að fyrsta frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sé einmitt um almenningssamgöngur.

Ég deili ekki áhyggjum hv. þingmanna úr röðum Vinstri grænna sem ræddu að það væri bagalegt að við værum að ræða þetta hér og við værum að fara á nefndarfund á eftir. Ég held einmitt að það sé mjög gott að frumvarpið sé rætt og að við nýtum tímann svo vel til að kalla eftir umsögnum. Ég treysti því að við munum vinna þetta mjög vel í nefndinni, fara faglega og vel yfir þetta, kalla til okkar gesti og þá sem kannski þekkja miklu betur til málanna en við sem sitjum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég þekki svolítið til fyrri útgáfu þessa frumvarps, ég kynnti mér það þegar ég starfaði á vettvangi sveitarstjórnar og sem stjórnarformaður Strætós. Ég veit að það er mikilvægt og það er fagnaðarefni að þetta frumvarp sé komið fram. Eins og farið var yfir áðan hefur verið kallað eftir skýrari lagaramma um almenningssamgöngur auk þess sem við erum með þessu að uppfylla EES-reglugerðir og mikilvægt að við sláum ekki slöku við í því.

Ég treysti því að hægt sé að samræma þetta hvort tveggja, þ.e. þá sérstöðu sem uppi er á Íslandi í fámenninu okkar og svo að uppfylla ákvæði EES-samningsins. Við höfum aðeins tæpt á borgarlínunni í þessum sal og mikið hefur verið rætt um hana í samfélaginu og það mikilvæga verkefni sem er í bígerð á höfuðborgarsvæðinu og ég vona að við getum komið inn á það í nefndinni og farið yfir hvort frumvarpið skýri kannski líka lagarammann í tengslum við slík verkefni. Það hefur verið svolítið kallað eftir því að til þess að ráðast í slíkt verkefni þurfi mögulega að breyta löggjöfinni. Það er spurning hvort eitthvað af því sem hér er geti komið til móts við það.

Það er í gangi tilraunaverkefni milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu almenningssamgangna. Það hefur ýmislegt gengið mjög vel í þeim efnum en betur má ef duga skal. Við þurfum að bæta okkur hvað það varðar, þ.e. auka hlutfall þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur reglulega, því að eins og hefur verið komið hér inn á er það mjög mikilvægt.

Mig langar í því sambandi að varpa því fram að velta Strætós bs. sem er stærsta almenningssamgönguþjónustufyrirtækið er um 7 milljarðar á ári. Um 800 milljónir af því eru greiddar úr ríkissjóði. Restin kemur þá fyrst og fremst frá sveitarfélögum og sem fargjaldatekjur. Þarna erum við bara að tala um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og inni í því er að sjálfsögðu líka ferðaþjónusta fatlaðra, sem eru almenningssamgöngur. Þegar við tölum um mikilvægi þess tek ég undir að það er mikilvægt að staðbundin stjórnvöld fái að skipuleggja þessa þjónustu því að á sveitarstjórnarstiginu erum við í meiri nálægð við íbúana og kannski betur til þess fallin að skipuleggja þjónustuna sem slíka en það er ástæða til að velta því fyrir sér hvar kostnaðurinn af almenningssamgöngum á að lenda og hver sé rétta skiptingin í þeim efnum.

Ef ég skauta aðeins yfir þá þætti sem ég rak augun í þá er talað um í 1. gr. frumvarpsins að lögin gildi um farþegaflutninga þegar um er að ræða bifreiðar sem eru skráðar fyrir níu farþega eða fleiri. Ég veit til þess að gerðar hafa verið athugasemdir við það. Það lýtur kannski helst að sérútbúnum bílum sem tengjast ferðaþjónustu fatlaðra, þeir eru oft útbúnir fyrir færri farþega og ég held að það sé mikilvægt að lögin taki líka á því. Ég held að við ættum að skoða það vel.

Ég tek undir það sem sagt hefur verið hér varðandi einkaréttinn og mikilvægi þess að þá sé horft á leiðakerfið allt, ekki einstaka leiðir. Ég veit ekki hvort þingmenn átta sig almennt á því að það er, að ég tel, góður ballans, ef ég leyfi mér að sletta, eða jafnvægi í einkarekstrinum annars vegar og svo aðkomu hins opinbera þegar kemur að almenningssamgöngum þar sem stór hluti af almenningssamgöngum er í raun rekinn af einkaaðilum. Þetta er boðið út. Allir landsbyggðarstrætóarnir svokölluðu eru farartæki í eigu einkaaðila á markaði og starfsmennirnir eru starfsmenn þeirra. Þetta hefur verið boðið út. En sveitarfélögin eiga engu að síður þennan rétt til að skipuleggja kerfið og bjóða það út. Sama á við um Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Um það bil 40% af öllum vagnaflotanum þar er í eigu einkaaðila.

En þá kemur að þessu mikilvæga. Til þess að geta haldið uppi öflugu leiðakerfi og skipulagt almenningssamgöngur sem gagnast fólkinu í landinu held ég að sé nauðsynlegt að opinber aðili, í þessu tilfelli sveitarfélögin, hafi með það að gera hvernig kerfið er skipulagt. Þá er auðvitað mjög brýnt að ekki sé hægt að taka einhverjar einstakar leiðir sem gefa vel af sér út úr kerfinu sem slíku.

Ég velti fyrir mér í 11. gr., um gæða- og tæknikröfur. Við þurfum að leggjast vel yfir það í nefndinni. Athugasemd mín lýtur að því sem mönnum hefur orðið tíðrætt um, sérstaklega þegar ræddar eru almenningssamgöngur úti á landi, þ.e. öryggisbelti og leyfi fyrir standandi farþegum. Þarna er tilgreint að Samgöngustofa muni gefa út leiðbeiningar hvað þetta varðar en við þurfum að taka þessa umræðu. Hún er stöðugt til staðar og það er snúið hvernig við samræmum þessa þætti.

Ég fagna þeirri breytingu sem hefur átt sér stað í 15. gr., það er talað um að bjóða út rekstur á fimm ára fresti en þó eigi sjaldnar en á tíu ára fresti, því í fyrri tillögum að frumvarpinu var þetta styttri tími. Það er mikilvægt fyrir þá aðila sem bjóða út þessa þjónustu að hafa það til lengri tíma því að gríðarleg fjárfesting felst í því að kaupa slíka vagna og setja upp alla aðstöðuna. Það þarf þennan tíma og þetta svigrúm til þess.

Svo má líka velta fyrir sér umræðu sem gæti skapast um 18. gr., um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga. Þeir hafa lagt áherslu á að aðgengið er erfiðara fyrir hreyfihamlaða þegar kemur að landsbyggðarstrætisvögnunum. Það er kannski eðli málsins samkvæmt því að þeir eru öðruvísi.

Svo finnst mér full ástæða til þess, ég get reyndar ekki séð að það sé í frumvarpinu, að skoða heimild rekstraraðila til að beita fésektum þegar svindlað er á kerfinu. Það eru ekki heimildir í dag ef fólk er með falsaða miða eða kort eða annað þess háttar að grípa til sekta. Það þyrfti með einhverjum hætti að taka á því.

En fleira hef ég ekki að segja um þetta frumvarp. Ég hlakka til að vinna með það í nefndinni og treysti því að við munum eiga gott samstarf við hagsmunaaðila og fara vel og vandlega yfir málið.