146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:50]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegur forseti. Mig langar við 1. umr. að greina örstutt frá þeim sjónarmiðum mínum, aðeins til mótvægis til marga aðra hv. þingmenn, að ég hef ekki af því sérstakar áhyggjur, hvorki sem stuðningsmaður atvinnufrelsis né umhverfisverndar, að það verði of margir sem muni sækjast eftir að flytja mikið af fólki í rútum. Ég hef ekki af því sérstakar áhyggjur. Ég hef ekki þann vinkil að hafa af því áhyggjur að einkaleyfin muni ekki halda nógu þröngt.

Ég held að þrátt fyrir að þau geti átt við í einhverjum tilfellum eigum við að nota þetta fyrirkomulag, sem er auðvitað ákveðin þvingun, fyrirkomulag einkaleyfa, sparlega. Það er auðvelt að segja að Ísland allt sé eitt almenningssamgöngukerfi og betri leiðirnar eigi að bera uppi þær leiðir sem ekki geti staðið undir sér en ég held að sú meginregla væri betri ef þetta væri notað einungis í þeim tilfellum þar sem sannarlega væri ekki hægt að koma við góðum almenningssamgöngum með öðrum hætti.

Við höfum reynslu af sambærilegu fyrirkomulagi sem gilti um alla Evrópu fyrir nokkrum áratugum þar sem öll álfan var hólfuð niður í sérstaka bletti og flugsamgöngur voru reknar að stórum hluta af ríkiseinokunaraðilum með þeirri skírskotun einmitt að hagkvæmari leiðir ættu að bera uppi stoðþjónustu. Síðan var þetta mikið til gefið frjálst með miklum mótmælum en niðurstaðan er miklu betri flugsamgöngur fyrir alla. Ég held að við ættum ekki að óttast þetta sérstaklega. Ég mun í vinnu í nefndinni huga frekar að því að gæta þess, eins og mér skilst að það sé, að ekki sé mikið verið að breyta frá þessari meginreglu, að frjáls samkeppni eigi sér stað þar sem það á við og að við leyfum henni að blómstra og getum þannig nýtt þau tækifæri sem hér eru að gefast með fjölgun ferðamanna og öðru.