146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:52]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Til hamingju með nýja embættið sem forseti. Ég vil þakka öllum nefndarmönnum umhverfis- og samgöngunefndar sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Nú liggur fyrir að við munum funda til þess að flýta fyrir og ná skilvirkari vinnu með því að fá umsagnir um frumvarpið. Þannig er málum háttað að í næstu viku er kjördæmavika og þess vegna hef ég látið boða fund nú í hádegishléi til þess að við getum samþykkt þá sem myndu vera mögulegir umsagnaraðilar um frumvarpið. Það er eingöngu gert til þess að við getum unnið þetta ítarlega og vel. Ég veit að í nefndinni verður svo sannarlega farið djúpt ofan í málin og það er gott að heyra hvað menn hafa miklar skoðanir á samgöngum sem eru náttúrlega gríðarlega mikilvægar fyrir okkur Íslendinga, langt á milli staða og oft um óbyggðir eða hér um bil óbyggðir að fara þannig að þetta er ekki bara samgöngumál heldur líka öryggismál. Það væri og til mikilla bóta ef við gætum komist á þann stað einhvern tíma í náinni framtíð að almenningssamgöngur væru niðurgreiddar í meira mæli en í dag. Ég vil bara taka undir orð hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar sem talaði áðan um að það fæli í sér mikinn sparnað.

En almenningssamgöngur eru náttúrlega ekki eingöngu á vegum. Þær eru líka í flugi. Þar er mikill akur að plægja fram undan hjá okkur. En ég læt þetta duga og þakka enn fyrir þessa umræðu.