146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[13:45]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og almennan stuðning hans við málið og vil byrja á að segja að ég tel vangaveltur hv. þingmanns vera mikilvægar og góðar. Ég er hjartanlega sammála því að orðum fylgir ábyrgð. Tjáningarfrelsinu fylgir ábyrgð og okkur á að þykja vænt um tjáningarfrelsið.

Ég tel að 95. gr. sé algjörlega óþörf vegna þess að það er heill kafli í almennum hegningarlögum, XXV. kafli, sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífsins og það ætti þá, telji menn nauðsyn á, að vera hægt að kæra fólk út frá þeim ákvæðum. Að mínu mati eiga þjóðarleiðtogar eða þjóðhöfðingjar ekki að hafa einhverjar sérreglur um sig. Eins og gildir um 95. gr. þá eru mun harðari viðurlög við því að móðga erlenda þjóðhöfðingja en að vera með ókvæðisorð í garð almennra borgara. Þjóðhöfðingjar eru auðvitað í valdastöðu og ættu þess vegna að geta betur varið sig og hins vegar stöðu sinnar vegna líka að þola umræðu um sig. Þess vegna tel ég þessa grein vera algjörlega óþarfa.

Svo finnst mér líka mikilvægt að taka fram að þetta frumvarp tekur heldur ekki til þess að þjóðhöfðingjar (Forseti hringir.) eigi að njóta sérstakrar verndar. (Forseti hringir.) Það sama á að gilda um allar móðganir alveg óháð því hvort einhver telji ávirðingarnar eiga rétt (Forseti hringir.) á sér eða ekki. Það er í raun aukaatriði í málinu.