146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[14:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og gleðst heils hugar yfir því að það sé áhugi hjá stjórnarþingmanni á að taka þátt í að veita þessu frumvarpi brautargengi sem og að leggja víðtækari áherslu á að bæta tjáningarfrelsi í landinu. Ég hlakka til áframhaldandi vinnu um þetta og vona að virðulegur þingmaður sjái sér fært að skoða líka kosti þess að styrkja þann lagagrundvöll sem dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hefðu á íslenskt réttarfar þar sem það fæli í sér stórkostlega réttarbót á Íslandi fyrir almenna borgara, að mínu viti. Ég nefni mál eins og t.d. Erlu Hlynsdóttur og fleiri blaðamanna sem hafa farið með mál sín fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og fengið dóma á hendur íslenska ríkinu staðfesta vegna brots á tjáningarfrelsi blaðamanna, þá þyrftum við ekki að sjá síendurtekna dóma um nákvæmlega sömu mál. Dómstólar á Íslandi hafa ekki fylgt eftir skýrum fordæmum frá Mannréttindadómstól Evrópu um hvernig beri að tryggja og framfylgja tjáningarfrelsi einstaklinga á Íslandi. Þeim beri einfaldlega að taka til greina þau tilmæli sem koma frá Mannréttindadómstól Evrópu, sem er jú æðsti túlkandi dómstóll mannréttindasáttmála Evrópu og hefur unnið mjög mikilvægt og mjög gott starf þegar kemur að því að byggja upp þau skilyrði sem við viljum setja okkur við skerðingu á tjáningarfrelsi og mannréttindum einstaklinga.

Ég vona að það verði líka liður í þessari endurskoðun. Þótt það snúi ekki einungis að tjáningarfrelsi heldur öllum þeim réttindum sem er að finna í mannréttindasáttmála Evrópu tel ég að það væri mjög mikilvæg réttarbót að gefa dómum Mannréttindadómstóls Evrópu töluvert meira gildi í íslensku réttarkerfi en það hefur í dag.