146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er langt síðan það hefur verið svona gaman að vera í þingsal. Mig langaði bara að árétta nokkra hluti sem ég náði ekki að klára áðan. Mig langaði að fara yfir þær útskýringar í þessu mjög svo fína frumvarpi sem bíður eftir að verða flutt af hæstv. menntamálaráðherra.

Helstu breytingar á núgildandi lögum í hinum nýju lögum sem felast í ofangreindu, eru þær að ekki verður lengur heimilt að dæma fólk til refsingar fyrir ærumeiðingar. Það er mjög mikilvægt. Þá eru þær meginreglur sem mótast hafa í dómaframkvæmd hér á landi og með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu orðaðar í lagatextanum sjálfum. Jafnframt eru felld brott ýmis ákvæði sem telja má úrelt, eins og um brigslyrði, heimild til að höfða opinbert mál vegna meiðyrða í garð opinberra starfsmanna og heimild til að dæma fjárhæð til birtingar dóms. Þá er lagt til að ákvæði 95. gr., um sérstaka æruvernd erlendra ríkja, þjóðhöfðingja þeirra og alþjóðasamtaka, verði felld brott. Hins vegar eru ekki lagðar til breytingar á ákvæðum sem lýsa alvarlegri tjáningarbrot refsiverð, eins og ummæli sem endurspegla kynþáttafordóma, móðganir og smánun í garð fjölskyldu sinnar. Þótt það sé ekki tekið sérstaklega fram í ákvæðinu ber að sjálfsögðu að skýra ákvæði laga á þessu sviði í samræmi við kröfur stjórnarskrár og alþjóðasáttmála sem íslenska ríkið er bundið af.

En mig langar í kjölfarið á þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað að vekja athygli á því að þó svo að ég hafi ekki þungar áhyggjur af því að þetta ákvæði sé enn í lögum, ekki neinar, þá hef ég áhyggjur af ýmsu öðru. Ég hef mun meiri áhyggjur af því hvernig dómstólum hér hefur verið beitt til þess að þagga niður í blaðamönnum, hvernig hinir valdameiri og þeir sem eiga nóg af peningum hafa tekið einstaklinga fyrir, jafnvel fyrir blogg, jafnvel blaðamenn sem hafa verið að skrifa og fjalla um valdamikið fólk. Hinir valdameiri hafa dregið þetta fólk fyrir dómstóla, sem er mjög dýrt fyrir það og getur hreinlega sett einstaklinga sem ekki eru valdamiklir í alvarlega fjárhagslega stöðu.

Ég hef líka veitt athygli mjög alvarlegum tilraunum til þöggunar. Það er mikill áróður gegn RÚV þessa dagana og búinn að vera í mörg ár, en hann verður sífellt þyngri. Þar hefur þjóðhöfðinginn Donald Trump svo sannarlega rutt brautina með því að ráðast viðstöðulaust á fjölmiðla, ráðast á fjölmiðlamenn sem þora að gagnrýna hann og jafnvel þá sem eru með skemmtiþætti þar sem valdamiklir menn eru teknir fyrir. Það hefur síðan skilað sér yfir til okkar og annarra landa. Má segja að tjáningarfrelsið eigi mikið undir högg að sækja, sem ég hef verulega miklar áhyggjur af.

Auðvitað er þessi tillaga mjög góð hreinsun á úreltum lögum. Vil ég þá beina því til annarra þingmanna að við förum í sérstakt átak að hreinsa úr lögunum, sem við eigum hér að fara eftir, alls konar úrelt fyrirbæri.

Við þurfum að færa lagasetningu inn í nútímann því að það er ekki bara að lögin virki ekki lengur og það sé almennt vantraust á stjórnmálamönnum út af því hversu margir falla á milli — alveg eins og við höfum séð með nýjum lögum um almannatryggingar, það eru ótrúlega margir sem síst mega við því sem fallið hafa á milli.

Jú, að sjálfsögðu styð ég þetta mál. En að sama skapi held ég að það sé mjög brýnt að við förum í alvöruvinnu við að laga úrelt og háskaleg lög. Á meðan lögin eru til má refsa fólki. Það er alvarlegt.

Að lokum vil ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur fyrir að vekja athygli á jafn mikilvægu máli og tjáningarfrelsinu.