146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[15:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. samflokksmönnum mínum fyrir góða yfirferð um ágæti þessa frumvarps sem við mælum hér fyrir, þingflokkur Pírata, og er eitt af okkar áherslumálum á þessu þingi. Þar sem þeir hafa farið ágætlega yfir efnisatriði frumvarpsins og kosti þess að leiða það í lög — ja, ég er ekki búin að heyra um neina galla hingað til — að aðgangur að þessum mikilsverðu upplýsingum skuli gerður aðgengilegur almenningi og það gjaldfrjálst öfugt við það sem nú er, langar mig að halda áfram með þær nokkuð heimspekilegu pælingar sem verið hafa í gangi á þessum þingfundi hér í dag og snúa að því sem þetta mál vissulega snýr að líka, en það tjáningarfrelsi. Réttur að aðgengi að upplýsingum er, eins og hv. þingmenn vita eflaust, hluti af tjáningarfrelsinu. Við vorum rétt í þessu að ræða frumvarp um afnám refsiábyrgðar gagnvart því að móðga erlenda þjóðhöfðingja og smána fána og ýmislegt annað furðulegt sem er enn þá í okkar lögum. Því tel ég fullt tilefni til þess að rifja upp hvað tjáningarfrelsi er og hvers vegna það skiptir okkur svona miklu máli. Við í Pírötum leggjum náttúrlega mjög mikla áherslu á tjáningarfrelsið.

Mig langar að setja það í samhengi við þetta frumvarp og við þá umræðu sem verið hefur í gangi fram að þessu. Því ætla ég að leyfa mér að vísa í grein sem ég skrifaði fyrir þó nokkru síðan, „Málfrelsi á mannamáli“, þar sem ég ræddi töluvert ítarlega þessi mikilsverðu réttindi, tjáningarfrelsið.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr henni og byrja á því að tala aðeins um 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem er um tjáningarfrelsi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi hindra ríki í að gera útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndafyrirtækjum að starfa aðeins samkvæmt sérstöku leyfi.

Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.“

Virðulegi forseti. Ég sé ekki að nein af þeim skilyrðum séu uppfyllt þegar verið er að tálma aðgengi almennings að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Þess vegna finnst mér mikilvægt að halda áfram að ræða mikilvægi tjáningarfrelsisins hér í ræðustól Alþingis.

Áfram held ég í grein minni og ræði um 73. gr. íslensku stjórnarskrárinnar, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“

Eins og sést eru ákvæðin svipuð þótt segja megi að tjáningarfrelsinu sé sniðinn þrengri stakkur í íslensku stjórnarskránni en í mannréttindasáttmálanum, en hv. þingmenn taka mögulega eftir því að hér vantar réttindi íslenskra borgara til að deila upplýsingum. Í núgildandi stjórnarskrá okkar er ekki að finna þann upplýsingarétt. En við skulum ekki örvænta, við erum samt sem áður aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu. Því getum við reitt okkur á þau ágætu skilyrði sem þar er að finna. En þó virðast dómstólar á Íslandi því miður alls ekki sammála því mati mínu, þ.e. að samkvæmt þjóðarétti séu ákvæði mannréttindasáttmálans æðri stjórnarskrám og öðrum lögum innan einstakra meðlimaríkja, sem þýðir að ef íslensk lög stangast á við ákvæði mannréttindasáttmálans eigi þau að víkja. En það þýðir líka að túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á tjáningarfrelsisákvæði sáttmálans ætti að hafa fordæmisgildi í íslenskum dómstólum.

Eins og áður sagði virðast dómstólar á Íslandi því miður alls ekki sammála þessu mati mínu þar sem þeir hafa ítrekað hunsað tilraunir verjenda sakborninga í meiðyrðamálum til þess að reiða sig á túlkun Mannréttindadómstólsins á tjáningarfrelsinu. Afneitun íslenskra dómstóla á skilgreiningarvaldi Mannréttindadómstólsins hefur að því er virðist haldist óbreytt þrátt fyrir ítrekaðar ávítur og dóma hins síðarnefnda um ólögmæti úrskurða hinna fyrrnefndu.

Eins og sjá má af 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu einskorðast tjáningarfrelsi ekki við rétt fólks til þess að tjá skoðanir sínar í ræðu og riti. Heilt yfir nær tjáningarfrelsið yfir eftirfarandi: Frelsi til þess að hafa skoðanir, frelsi til þess að meðtaka upplýsingar og skoðanir og frelsi til þess að dreifa upplýsingum og skoðunum.

Ríkisvaldinu er óheimilt að hefta flæði upplýsinga og tjáningar innan lands sem utan nema í samræmi við þær undanþágur sem finna má í 2. mgr ákvæðisins.

Mig langar að impra aðeins á frelsinu til þess að meðtaka og deila upplýsingum og skoðunum, sem er það sem frumvarp okkar Pírata snýr sérstaklega að. Eðli málsins samkvæmt hlýtur frelsi til þess að meðtaka og deila upplýsingum og skoðunum að fara saman og telst sá pakki í raun grundvallarskilyrði fyrir lýðræðislegu þjóðfélagi. Hér eigum við einkum við frelsi fólks, sérstaklega fjölmiðlafólks, til þess að gagnrýna ríkisstjórnina, en það er algert skilyrði fyrir frjálsum kosningum.

Það mál sem við höfum til skoðunar hér er frelsi fjölmiðla og almennings til þess að nálgast upplýsingar sem gera þeim kleift að mynda sér upplýsta skoðun á viðskiptalífinu á Íslandi og í raun að auðvelda fjölmiðlum að vinna vinnu sína í þágu almennings.

Eins og hv. samflokksmenn hafa farið yfir er töluvert ódýrara að fara þessa leið en búa til einhvers konar vefverslun þar sem almenningur er látinn borga fyrir aðgang að upplýsingum sem unnin er af starfsmönnum sem vinna fyrir almenning í landinu. Á meðan ekki er talað um að eyða eigi öllum prenttónerum landsins í það að prenta út fyrirtækjaskrár, heldur sé þetta einfaldlega aðgengilegt rafrænt, ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að deila þessum upplýsingum og ekkert ætti að stöðva það að þessar upplýsingar væru aðgengilegar og gjaldfrjálsar almenningi, því að eins og við Píratar segjum gjarnan þá eru upplýsingar forsenda upplýsingar. Gagnsæi er eitt af okkar kjörorðum. Þetta er ekki stórt frumvarp í sniðum en ég tel það fela í sér mjög mikilsverða réttarbót fyrir almenning og fyrir fjölmiðla í landinu. Því mæli ég eindregið með því að málið hljóti brautargengi hér á þinginu.