146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Margt af því sem hann kom að er einmitt hugmyndafræðilegs eðlis. Í hinu stóra samhengi er það ákveðin hugmyndafræði að búa til verðmæti úr einhverju sem gert er með því að setja upp borgunarvegg eða peningavegg. Þar er hægt að rekja beinan kostnað af því á einhvern hátt. En það sem gleymist oft er hinn óbeini gróði sem ég nefndi áðan, að fréttin varð ekki til og samfélagið varð fátækara fyrir vikið, það vissi minna en lá fyrir.

Annað dæmi svipað og varðandi Landmælingar er íslensk orðabók. Núna er kominn út vefur sem heitir málið.is og er með fullt af gagnlegum upplýsingum um íslenskt mál, og er að hluta til orðabók. Þetta er málið okkar allra en samt er þarna samkeppni við einkaaðila sem gefa líka út orðabók. Það er mjög skrýtið að einhvern veginn sé hægt að loka aðgengi að upplýsingum sem við höfum saman greitt til þess að búa til og það má ekki nota afurðina af því að annar einkaaðili er líka að gera þetta. Það getur alveg verið samkeppni þarna á milli.

Varðandi kostnað þá þyrftu einstaklingar ekki endilega að borga þennan kostnað. Hann er einmitt, eins og hv. þingmaður segir, greiddur af fyrirtækjum við að komast í fyrirtækjaskrá þar sem stofnun fyrirtækja eru upprunalega bara ákveðin leyfi til framkvæmda. Leyfið er endurnýjað og þar er ákveðinn kostnaður við umsýslu þess að hafa fyrirtæki sem stunda framkvæmdir. Hluti af því er að hafa aðgang að upplýsingum um fyrirtækin sjálf.

Þetta er mjög margslungið mál (Forseti hringir.) en það er samt rosalega mikilvægt að gera það á réttan hátt og hleypa fólki í þessar upplýsingar.