146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Það eru nú þrjú fyrirtæki sem selja aðgang úr fyrirtækjaskrá, safna saman og setja þau í skýrslur. Það er væntanlega peningur sem glatast þannig séð í samskiptum við ríkisskattstjóra, þeir greiða væntanlega eitthvað fyrir það aðgengi. En að sama skapi glata þau fyrirtæki ekkert endilega sérstöðu sinni í því að safna saman skýrslum og tengingum og gröfum o.s.frv. um fyrirtæki sem þau geta síðan haldið áfram að selja. Það eru því rosaleg tækifæri í að vera með frjálst aðgengi að opinberum upplýsingum sem önnur fyrirtæki geta síðan auðgað og gert betri fyrir væntanlega einhverja neytendur sem hafa áhuga á því.

Að sama skapi gæti það virkað fyrir útgáfu námsbóka. Þar sem ég vann áður hjá Menntamálastofnun, sem er sameinuð Námsmats- og Námsgagnastofnun, vann ég að verkefni þar sem ég var að reyna að búa til opnar námsbækur þar sem kennarar, fagfólk og/eða nemendur gætu unnið saman að því að búa til námsbækur sem væri ákveðinn grunnur sem hver sem er getur farið í og búið til forrit í símann eða eitthvað slíkt, og auðgað það, gert það betra og þá selt þá útgáfu. En sameiginlega útgáfan sem við leggjum öll vinnu okkar í er alltaf aðgengileg fyrir alla. Þá getur fólk valið hana í staðinn fyrir einhverja með flottari myndum eða slíku, sem einstaka aðilar geta betrumbætt. Smám saman vinnst sú betrumbót aftur í safnið sem við njótum öll góðs af. Ég sé því mikil tækifæri í því að við vinnum saman að því að búa til sameiginlegar upplýsingar sem við getum öll notað og skoðað, betrumbætt og endurnýtt.