146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[16:21]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir umræðurnar og tek undir allt það sem komið hefur fram hér. Markmiðið með frumvarpinu er einfalt. Við viljum vita hver ber ábyrgð. Ég vil vita við hvern ég versla. Málið er ekki rosalega miklu flóknara en það þegar allt kemur til alls.

Hér hefur verið farið yfir mjög mörg dæmi um hvað hefði verið betra ef við hefðum verið með ókeypis aðgang að þessum upplýsingum t.d. fyrir hrun. Þá hefðum við séð öll krosseignatengslin. Við hefðum mögulega getað komið í veg fyrir jafn hátt fall og raun bar vitni ef við hefðum vitað meira, og hefðum getað grafist fyrir um þær upplýsingar á þeim tíma. Markmiðið er ofsalega einfalt; að vita hverjir bera ábyrgð, að vita við hvern ég versla. Kostnaðurinn er, eins og komið hefur fram, merkjanlegur í sértekjum hjá ríkisskattstjóra, en ágóðinn er svo sannarlega rosalega mikill. Ef við tökum dæmi frá hruninu og því áfalli sem við lentum í þar hefðum við getað komið í veg fyrir brot af þeim kostnaði. Þá borgar þetta sig margfalt.

Ég þakka kærlega fyrir og njótið vel.