146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

110. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Meðflutningsmenn mínir eru Birgitta Jónsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Logi Einarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þórunn Egilsdóttir, Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja Sigurðardóttir.

Lagt er til að á eftir 17. gr. laganna komi ný grein, 17. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

„Foreldrar sem þurfa að sækja fæðingarhjálp utan heimabyggðar.“

Á eftir 22. gr. laganna komi ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

„Foreldrar sem þurfa að sækja fæðingarhjálp utan heimabyggðar.“

Lagt er til að lög þessi öðlist þegar gildi.

Frumvarp þetta var fyrst lagt fram á 144. löggjafarþingi og endurflutt á 145. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú lagt fram lítið breytt.

Með fæðingarhjálp er í frumvarpi þessu átt við hverja þá aðstoð eða þjónustu sem veitt er af faglærðu heilbrigðisstarfsfólki í tengslum við tilvonandi eða yfirstandandi fæðingu og almennt er talin nauðsynleg til að tryggja eins vel og verða má líf og heilbrigði barns og móður eftir fæðingu. Nokkrum hópi fólks stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingarhjálp í heimabyggð og þarf því að dveljast fjarri heimili sínu fyrir fæðingu til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp þegar að fæðingu kemur. Af þessu getur stafað nokkur aðstöðumunur milli þessa hóps og þeirra sem eiga kost á fæðingarhjálp í heimabyggð og þurfa því ekki að dveljast annars staðar meðan beðið er fæðingar. Þessu frumvarpi er ætlað að leiðrétta hluta þess aðstöðumunar.

Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að foreldrum sem þurfa að dveljast utan heimilis til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp, og geta ekki vegna vegalengdar eða landfræðilegra aðstæðna sótt heimili sitt daglega, verði heimilað að hefja fæðingarorlof eða töku fæðingarstyrks þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, sem staðfestur skal með læknisvottorði, eða fyrr ef staðfest er með læknisvottorði að þess sé þörf. Almennt er talið ráðlegt að barnshafandi konur séu nálægt fæðingarstað ekki síðar en þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, eða í 38. viku meðgöngu miðað við 40 vikna meðallengd meðgöngu. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að foreldrar geti hafið fæðingarorlof eða töku fæðingarstyrks fyrr ef staðfest er með læknisvottorði að þess gerist þörf að móðir sé fyrr nálægt fæðingarstað. Mat á því hvort þess sé þörf að barnshafandi móðir dveljist fjarri heimili sínu til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp fyrir fæðingu er fyrst og fremst læknisfræðilegt. Alla jafna má ætla að sú fæðingarhjálp dugi sem býðst í umdæmissjúkrahúsum, samanber 3. málslið 1. mgr. 18. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Í sérstökum tilvikum gæti foreldrum þó verið nauðsynlegt af læknisfræðilegum ástæðum að sækja sérhæfðari þjónustu annað. Það getur t.d. átt við í tilviki fjölburafæðinga og þegar vandamál í fæðingu eru fyrirsjáanleg. Rétt er að miða við að hitt foreldrið geti þurft að dveljast fjarri heimabyggð samtímis barnshafandi móður.

Í frumvarpinu er miðað við þriggja vikna tilkynningarfrest til samræmis við það viðmið sem fram kemur í 2. málslið 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þó er gert ráð fyrir að heimilt verði að víkja frá þeim fresti ef ófyrirséð er hvenær foreldrar þurfa að hefja fæðingarorlof eða töku fæðingarstyrks. Það gæti átt við þegar upp koma óvæntir atburðir sem krefjast þess að foreldrar dveljist nálægt fæðingarhjálp fyrr en ráð var fyrir gert. Að öðru leyti er ráðgert að hvort foreldri fyrir sig sæki um greiðslur í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk til samræmis við gildandi reglur laganna.

Með frumvarpinu er hins vegar lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða -styrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Að öðrum kosti ættu foreldrar, sem þurfa að nýta fæðingarorlof eða -styrk til að sækja fæðingarhjálp fjarri heimili sínu, að öðru jöfnu minna fæðingarorlof eða -styrk eftir til að nýta til umönnunar og samvista við börn sín eftir fæðingu en foreldrar sem búa þar sem fæðingarþjónusta er í heimabyggð. Sú staða er andstæð jafnræðissjónarmiðum og ekki barni fyrir bestu, samanber 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Gert er ráð fyrir að framlenging fæðingarorlofs nemi þeim dagafjölda sem foreldri dvelst utan heimilis, sem miðast jafnan við tímabilið frá því að foreldri fer frá heimili til að vera nálægt fæðingarhjálp og fram að fæðingu barns. Þar sem greiðsla fæðingarstyrks miðast aðeins við heila mánuði er gert ráð fyrir að framlenging hans nemi að jafnaði einum mánuði, en geti þó numið tveimur mánuðum ef sérstakar aðstæður krefjast þess að foreldri dveljist lengur fjarri heimili. Þá er gert ráð fyrir að foreldrum sem hefja töku fæðingarstyrks fyrr en ella vegna þessara aðstæðna verði heimilað að skipta töku styrksins upp í tímabil, sem jafnan er óheimilt. Kallar þetta á breytingu á 6. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 1218/2008.

Að þessu sögðu langar mig að nefna nokkur atriði til viðbótar. Eins og ég sagði hér fyrr í máli mínu þá leiðréttir þetta frumvarp, ef það fæst samþykkt, ekki þann aðstöðumun sem er á fólki hér á landi varðandi aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu.

Annað atriði sem tengist þessu, ef við tölum sérstaklega um fæðingar og fæðingarhjálp, er sá húsnæðiskostnaður sem fólk utan af landsbyggðinni þarf að leggja út fyrir þegar það þarf að dvelja fjarri heimili sínu vikum og jafnvel mánuðum saman fyrir fæðingardag barnsins. Þetta eru háar upphæðir. Fólk dvelur kannski þrjár til sjö vikur, og jafnvel lengur, fjarri heimili sínu og þarf að leigja húsnæði. Ég þekki til þess að fólk er að taka Airbnb-íbúðir á leigu. Sumir hafa aðgang að verkalýðsbústöðum. Sumir eiga fjölskyldu og vini sem geta hýst þau, en ekki allir. Það er líka ákveðnum vandkvæðum bundið að fá inni hjá öðrum fjölskyldum þegar jafnvel fleiri börn eru með í för. Þetta er ekki lítið mál og þetta er mjög kostnaðarsamt. Þetta er líka atriði sem við verðum að ræða hér á þingi, þ.e. hvernig við ætlum að uppfylla að fullu lög um heilbrigðisþjónustu. Við getum það kannski ekki alveg, það er kannski meira teorískt, en samt getum við farið nær því að uppfylla núgildandi lög um heilbrigðisþjónustu, þ.e. að tryggja öllum jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, svo að það gildi hér jafnræði. Það gerir það ekki.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að gerð verði heilbrigðisáætlun þar sem tekið verði tillit til mismunandi landfræðilegra þátta, samgangna og fleiri þátta. Þetta snýr náttúrlega líka að fæðingaraðstoð. Þetta tekur yfir alla heilbrigðisþjónustu, slík áætlun mundi gera það. Þetta er, eins og ég sagði, einn angi af mjög mörgu sem við þurfum að huga að.

Hér fyrr í vikunni var mjög góð umræða um heilsugæsluna í landinu sem hv. þm. Guðjón S. Brjánsson hóf. Það kom mjög sterkt fram, í máli þeirra þingmanna sem töluðu í þeirri umræðu, að uppbygging heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu væri jákvæð en fyrr en síðar þyrfti að huga að heilsugæslunni og heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni. Þannig að víða er pottur brotinn.

Við vitum öll að heilbrigðiskerfið hefur fengið að finna fyrir því, sérstaklega í kjölfar hrunsins. Ég ætla ekki, eins og ég hef áður sagt, að leita að neinum sökudólgum, það er enginn tilgangur með því. Það sem við þurfum að gera er að horfa til framtíðar. Hvaða framtíðarsýn höfum við? Við þurfum að horfa á stóru myndina. Ég hef átt mörg samtöl við marga varðandi heilbrigðiskerfið, sérstaklega síðustu vikur og mánuði. Mér finnst oft að fólk horfi svo þröngt á hlutina, horfi á þá út frá sjálfu sér og horfi á ómöguleikann fyrst og fremst; nei, þetta er ekki hægt. Það er allt hægt. Ef við höfum plan, erum með áætlun, erum með sýn.

Ég líki þessu við það að vera innanhússhönnuður. Þú kemur inn í handónýta íbúð og það stendur manneskja við hliðina á þér og horfir á sömu íbúð: Þetta er forljótt, þetta er ómögulegt, þetta getur aldrei orðið neitt. En þú sem hönnuður horfir á íbúðina, sérð möguleikana, sérð tækifærin og sérð fyrir þér hvernig þetta gæti orðið og svo bara finnur þú út úr því. Það þarf náttúrlega að panta smið og pípara og það þarf að velja alls konar efni. Jú, jú, þetta er flókið og þetta getur verið erfitt og stundum er maður næstum því að fara að gefast upp — og nota bene ég er ekki innanhússhönnuður.

Það er eins með heilbrigðiskerfið. Við þurfum að hafa þessa sýn. Við þurfum að trúa því að við getum farið í ákveðna átt og bætt kerfið. Í leiðinni getum við fundið út úr þeim hindrunum sem eru til staðar ef viljinn er fyrir hendi.

Við hér á Alþingi erum með gríðarlega mikið vald. Við erum með löggjafarvald. Ef lög eru fyrirstaðan þá getum við alltaf breytt þeim. Heilbrigðiskerfið er mannanna verk. Lögin sem við samþykkjum eru okkar lög, þessu getum við breytt. Fólk segir: Þetta er svo dýrt og svona. Jú, jú. Það kom líka fram í sérstöku umræðunni um heilsugæsluna að hlutirnir kosta, en þá verður maður líka alltaf að spyrja sig: Erum við með því að spara á einum stað að fara í meiri kostnað á öðrum stað? Við þurfum að horfa heildrænt á kerfið okkar. Við getum gert það betra og nýtt fjármunina betur ef við horfum á það út frá heildarkerfinu, ekki bara út frá Landspítalanum, bara út frá heilsugæslunni á landsbyggðinni eða höfuðborginni eða bara út frá sjúkraflutningum. Horfum á þetta í heildarsamhengi.

Það frumvarp sem ég mæli fyrir er kannski lítill partur í því að koma til móts við fólk sem nýtur ekki jafnræðis, en þarna er hægt að koma til móts við það með ákveðinni lagabreytingu á meðan við erum að gera kerfið þannig að hægt sé að tryggja fólki betri heilbrigðisþjónustu um land allt.