146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

110. mál
[16:55]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var áhugavert að heyra. Nú er staðan sú að verðandi mæður greiða fyrir dvöl á sjúkrahóteli hér í borginni, 1.500 kr., en á sama tíma þurfa verðandi feður að greiða 6.000 kr. fyrir sömu aðstöðu, sem er mjög mikil mismunun og í rauninni ólíðandi. Mér fannst áhugavert að heyra hv. þingmann opna á það við skoðuðum hverjir möguleikarnir eru, hvort mögulega sé hægt að bjóða upp á annars konar dvöl en t.d. sjúkrahótel eins og við höfum núna. Maður veltir fyrir sér hvort það væri hagkvæmt fyrir ríkið, af því að verðandi mæður og verðandi feður eru ekki sjúklingar. Af hverju erum við með þetta fólk á sjúkrahóteli? Út af því að ekkert annað er í boði. Maður veltir fyrir sér hvort ríkið ætti mögulega að koma að því að byggja litlar hagkvæmar íbúðir fyrir verðandi foreldra á þeim stöðum þar sem fæðingarþjónusta er í boði, þar sem foreldrar gætu dvalið sér að kostnaðarlausu, þeir foreldrar sem eru í þeirri aðstöðu að geta ekki eignast barn heima hjá sér.